Sameinuðu þjóðirnar fagna í ár 80 ára afmæli stofnsáttmálans. Í gær hófst áttugasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) voru stofnaðar árið 1945, skömmu eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, með það að markmiði að stuðla að friði, mannréttindum og alþjóðlegri samvinnu. En hvar stendur þessi merkilega stofnun í dag? Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Védís Ólafsdóttir, verkefnastjóri þar á bæ líta við hjá okkur.
Við þurftum ekki að lifa mjög lengi með gervigreindinni áður en mannfólkið fór að verða ástfangið af þessum þægilegu og skilningsríku vélmennum. Við rákum augun í áhugaverða grein á Guardian þar sem rætt er við fólk sem á í ástarsamböndum við gervigreind. Við ræðum málið við Ársæl Má Arnarson prófessor í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, rýna í fjárlagafrumvarp og þingmálaskrá.
Við fáum til okkar Emblu Bachman og Kára Einarsson. Þau fóru hringferð í kringum landið í sumar til stuðnings herferð Riddara kærleikans. Kári og Embla eru fyrrum skólafélagar Bryndísar Klöru úr Verslunarskólanum og var markmiðið með hringferðinni er að vekja athygli á söfnunni fyrir Bryndísarhlíð og efla vitundarvakningu sem byggir á kærleika, samtali og samkennd.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, og Hafsteinn Einarsson, sérfræðingur í gervigreind, rýna í áherslur ríkisstjórnarinnar þegar kemur að íslensku og máltækni.