Hlaupahópurinn HHHC Boss stendur þessa dagana í ströngu við að hlaupa sex maraþon á jafnmörgum dögum. Lokahnykkurinn verður svo í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hópurinn hleypur síðustu kílómetrana af samtals 420 kílómetra löngu verkefninu. Þetta er allt saman hlaupið í jakkafötum í ofan á lag. Leikurinn er til þess gerður að safna fyrir stuðningsfélagið Kraft. Við ræðum málið við einn hlauparanna, Almar Guðmundsson bæjarstjóra.
Við höldum áfram að ræða stöðuna á húsnæðismarkaði í aðdraganda stýrivaxtaákvörðunar, nú við Moniku Hjálmtýsdóttur, formann Félags fasteignasala.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gekk síðdegis í gær til fundar við Donald Trump í Hvíta húsinu. Fundurinn fór öllu betur en stormasamur fundur þeirra í febrúar. Fundurinn var haldinn í beinu framhaldi af viðræðum Trumps og Pútíns Rússlandsforseta í Alaska á föstudag, sem þóttu hafa gengið vel fyrir Pútín og Rússa. Eftir sitja margar spurningar. Við ræðum stöðuna við Val Gunnarsson rithöfund og sagnfræðing.
Talsverð umræða hefur skapast um spotify og greiðslur til listamanna að undanförnu. Ekki síst íslenskra listamanna. Spotify er með nálægt 100 prósenta markaðshlutdeild í streymi á tónlist hérlendis. Formaður STEFs sagði í samtali við fréttastofu í gær samtök rétthafa reyna að þrýsta á um betri kjör tónlistarmanna, meðal annars með ákalli um lagasetningu. María Rut Reynisdóttir framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar ræðir málið við okkur.
Óvenju mikið virðist vera um fréttir af ölvun í flugi þessa dagana. Vél frá Keflavík til Kaupmannahafnar þurfti að leggja lykkju á leið sína á sunnudaginn og lenda í Björgvin í Noregi þar sem farþegi þótti of ölvaður og á laugardagskvöld þurfti vél sem var á leið héðan til Ungverjalands sömuleiðis að lenda í Noregi þar sem vísa þurfti tveimur fullum mönnum úr vélinni sem voru til vandræða. Við ræðum við Einar Örn Einarsson, sem sér um öryggismál í flugvélum Icelandair, um stöðu mála.
Það vakti athygli okkar á ferðalagi um vef The Economist í gær að þar voru allar mest lesnu fréttirnar um fund Trump og Zelensky nema ein - og þar var spurt: Ættir þú að vera að taka Kreatín? Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, verður gestur okkar í lok þáttar þegar við ræðum þetta vinsæla bætiefni.