26. ágúst - Sameiningar íþróttafélaga, leikhús og laun
Stefán Þorri Helgason, sálfræðingur, verður gestur okkar í upphafi þáttar. Hann skrifaði grein sem vakti nokkra athygli í gær: er ég ömurlegt foreldri ef ég segi nei við barnið mitt?
Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður og mannfræðingur, ræðir við okkur um sameiningar íþróttafélaga á Íslandi og tækifæri sem í því felast.
Samkvæmt Hagstofunni hefur matvöruverð hækkað um fimm prósent að meðaltali undanfarið ár og voru nokkrir neytendur spurðir í upphafi Kastljóss í gær hvort þeir vissu hversu mikið nokkrar vörur hefðu hækkað í verði í tiltekinni verslun. Við viljum fá að vita meira um vöruhækkanir og verðlag. Benjamín Julian hjá verðlagseftirliti ASÍ spjallar við okkur.
Þórólfur Matthíasson, prófessor emeritus í hagfræði, verður gestur okkar eftir átta fréttir þegar við ræðum tekjujöfnuð og launadreifingu í ljósi Tekjublaðs og hátekjulista Heimildarinnar.
Ráðist verður í gerð viðbyggingar við Þjóðleikhúsið sem ætlað er að hýsa sýningar- og æfingarými. Stefnt er að því að viðbyggingin verði tekin í notkun 2030, á 80 ára afmæli Þjóðleikhússins. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, færði þjóðleikhússtjóra viljayfirlýsingu þess efnis við setningu Menningarnætur um helgina. Við ræðum við Loga.
Frumflutt
26. ágúst 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunútvarpið
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.