Óvenjulegar jólahefðir, maður ársins, umferðarljós og fréttir vikunnar
Í þættinum í gær auglýstum við eftir óvenjulegum jólahefðum Íslendinga og óskuðum eftir því að fólk myndi senda okkur póst á morgunutvarpid@ruv.is. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og margar frábærar jólahefðir, hver annarri óvenjulegri, bárust. Af þeim sem sendu okkur póst átti Jóhanna Svala Rafnsdóttir eflaust óvenjulegustu jólahefðina en hún og fjölskylda hættu að gefa og þiggja jólagjafir, eitthvað sem börnin á heimilinu samþykktu með semingi að prufa. Við heyrðum í Jóhönnu og hún sagði okkur frá þessari hefði og fleiri óvenjulegum jólahefðum.
Nýir og langþráðir sánaklefar opnuðu í Vesturbæjarlauginni í vikunni við hátíðlega athöfn. Sánurnar eru þrjár talsins, sú fyrsta er að öllu leyti hefðbundin og þar má tala saman, önnur er örlítið heitari og gestir hennar eru beðnir um að hafa hljótt um sig og sú þriðja er infrarauð. Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, fjallaði um breytingarnar á sánunni í Vesturbæjarlauginni á sínum tíma þegar hún var fréttamaður á Stöð 2. Hún leit við í Morgunútvarpinu með sjóðandi heita umsögn um nýju sánaklefana.
Nú styttist í að manneskja ársins verði valin á Rás 2 og því ekki seinna vænna að byrja að taka við tilnefningum. Við opnuðum fyrir símann.
Foreldrar í Laugarneshverfi ætla að setja upp sín eigin umferðarljós við gatnamót í hverfinu eftir að hafa fengið sig fullsadda af aðgerðaleysi Reykjavíkurborgar. Tvö umferðarslys, þar sem ekið var á börn, hafa orðið við gatnamótin á skömmum tíma og á málið sér lengri baksögu, sem Elías Blöndal Guðjónsson, faðir í hverfinu, sagði okkur betur frá.
Loks ræddum við fréttir vikunnar.
Frumflutt
5. des. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunútvarpið
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.