Torfi Tulinius, prófessor sem vel þekkir til í Frakklandi, verður á línunni í upphafi þáttar þegar við ræðum frönsk stjórnmál, mótmæli og nýjan forsætisráðherra.
Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður og mannfræðingur, ræðir við okkur um Suður-ameríska knattspyrnu, sögu hennar og hugmyndafræði en argentínska félagið Independiente var dæmt úr keppni í Suður-Ameríku bikarnum. Independiente segir ákvörðunina tekna í pólitískum tilgangi, til að þjóna hagsmunum auðvaldsins hjá Universidad.
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur, ræðir við okkur um boðaða lækkun sakhæfisaldurs í Svíþjóð í 13 ár.
Menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra hefur lagt til að skrásetningargjöld í opinbera háskóla geti orðið 100 þúsund krónur fyrir skólaárið. Ef tillagan fær samþykki Alþingis tekur hún gildi á næsta ári. Við ræðum málið við Arent Orra J. Claessen, formann Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Rússneskir drónar rufu lofthelgi Póllands í gærnótt. Greinendur hafa sagt líklegt að drónarnir séu tálbeitur sem Rússar hafi skotið til að kanna loftvarnir Póllands og viðbrögð Vesturlanda. Við ræðum við Margréti Adamsdóttur fréttamann um það hvernig málið lítur út fyrir Pólverjum.
Charlie Kirk, bandarískur áhrifavaldur á hægri væng bandarískra stjórnmála, var skotinn til bana á viðburði í háskóla í Utah í gærkvöldi. Við ræðum við Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúa sem vel þekkir til í Bandaríkjunum.