Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, verður á línunni í upphafi þáttar þegar við ræðum skemmtiferðaskip og ferðaþjónustu almennt á svæðinu.
Íslendingar á ferðalögum til Bretlands geta aftur farið að nota farsímann þar án þess að þurfa að greiða aukalega fyrir. Ég ræði við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, um reglur um reiki í Evrópu og næstu skref.
Víkingar eru mættir til Danmerkur þar sem þeir mæta Bröndby í seinni leik liðanna í Sambandsdeild Evrópu á morgun. Öryggisstjóri Knattspyrnusambands Evrópu hefur sett leik Bröndby og Víkings á hæsta viðbúnaðarstig í kjölfar óláta stuðningsmanna í fyrri leik félaganna í Fossvogi og ríkislögreglustjóri hefur verið í samskiptum við dönsk knattspyrnuyfirvöld. Sverrir Geirdal, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings, verður á línunni frá Kaupmannahöfn.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og Arna Lára Jónsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, verða gestir mínir eftir átta fréttir þegar við ræðum stöðu efnahagsmála og óvissu í alþjóðahagkerfinu.
Finnur Dellsén, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, og Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við félagsvísindasvið skólans, verða gestir mínir í lok þáttar en þeir eru ósammála um hvort brotið hafi verið á akademísku frelsi ísraelsks prófessors, sem hugðist flytja erindi um gervigreind fyrir helgi, en fékk ekki út af mótmælum.