9. apríl - ESB, Ísrael og áhrif tolla á fátækari ríki
Fyrstu lundarnir náðu landi í Grímsey um helgina - nokkuð á undan áætlun. Svafar Gylfason, sjómaður á svæðinu, fylgist vel með stöðu mála og verður á línunni hjá okkur í upphafi þáttar.
Við ræðum áhrif tolla Trumps á einhver fátækustu ríki heims við Birnu Þórarinsdóttur framkvæmdastjóra UNICEF.
Vorin eru tími tilfinninga og tilhugalífs. Hreiðurgerð er mikil verkfræðivinna og pörin sem leggja í slíkt hafa með sér dugnað og óbilandi trú á framtíðina. Ég verð alltaf órólegur á þessum tíma fyrir hönd hinna fiðruðu vina minna. Þetta skrifar Jökull Jörgensen sem kallar eftir ábyrgu kattahaldi þetta vorið. Við heyrum í honum.
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir því ísraelska í dag í fyrri leik liðanna í umspilseinvígi um laus sæti á HM á næsta ári. Mikil umræða hefur verið um leikinn sem fer fram fyrir luktum dyrum og hefur því verið beint til liðsins að keppa ekki við Ísrael vegna stöðunnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Við ætlum að ræða við Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, sem hefur sérhæft sig í félagsfræði íþrótta og ráðlagt mörgum liðum og leikmönnum.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verða gestir okkar eftir fréttayfirlitið hálf níu þegar við ræðum nýjan þjóðarpúls Gallups um viðhorf landsmanna til Evrópusambandsins og ástandið í efnahagsmálum í ljósi tollastríðs.
Frumflutt
9. apríl 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunútvarpið
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.