2. des -Endurmörkun kirkjunnar, kaupfíkn á afsláttardögum o.fl..
Ísland opnaði sendiráð á Spáni í gær, nánar tiltekið í höfuðborginni Madríd. Spánn hefur lengi verið efst á lista þeirra sem ferðast úr landi frá Íslandi en þúsundir Íslendinga eiga líka húsnæði á Spáni og fer sú tala vaxandi. Inga Lind Karlsdóttir er kjörræðismaður Spánar á Íslandi og Morgunútvarpið sló á þráðinn til hennar í Madríd.
Þjóðkirkjan hefur kynnt nýtt merki, einfaldan kross á einlitum grunni, ásamt því að setja í loftið nýja vefsíðu. Í pistli á Vísi í gær undir fyrirsögninni Opin þjóðkirkja í sókn sagði biskup Íslands að kirkja í nútímasamfélagi þurfi að hafa alla sína miðla í lagi, jafnt samfélagsmiðla sem og vefsíðu. En hvar liggja sóknarfæri þjóðkirkjunnar eftir stöðuga fækkun undanfarin ár? Morgunútvarpið fékk til sín markaðssérfræðingana Önnu Fríðu Gísladóttur og Magnús Árnason til að kafa ofan í þessa spurningu, nú þegar kristin trú virðist komin í tísku.
Stjórnvöld virðast vera ráðalaus þegar kemur að fíknivanda ungs fólks. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur látið sig málefnið varða og sagðist í pistli á dögunum ekki skilja af hverju fíkn sé skilgreind sem heilbrigðisvandamál hjá fullorðnum en hegðunarvandi hjá unglingum. En er eitthvað að gerast í þessum málum eftir margar hræðilegar fréttir af örlögum ungs fólks sem glímir við fíknivanda? Fjölmörg hafa tjáð sig um málefnið undanfarið en eru stjórnvöld að hlusta? Jón Gnarr ræddi málið í Morgunútvarpinu.
Við erum að sigla út úr afsláttardögum þar sem auglýsingar og aðferðir til að láta okkur líða eins og við séum að missa af bylja á okkur hvert sem litið er. Bergþóra Þorsteinsdóttir sagði okkur frá baráttu sinni við kaupfíkn á dögum sem þessum.
Frumflutt
2. des. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunútvarpið
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.