Nú er rétt tæpur mánuður til jóla og margt fólk dottið í jólastemminguna og undirbúning jóla. Yngsta kynslóðin bíður spennt og aðventan er gjarna tími fjölskyldunnar þar sem gaman er að gleðjast saman. Ævintýri í jólaskógi er fjölskylduskemmtun sem sameinar jólastemmingu, gleði, útivist og hreyfingu og við fengum til okkar samstarfsfólk jólasveinanna þau Önnu Bergljótu Thorarensen og Sigstein Sigurbergsson sem sögðu okkur af jólaskóginum og hvað fer þar fram.
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði segir þolinmæði Hafnfirðinga á þrotum vegna mikillar umferðar í gegnum bæinn. Heilu hverfin séu innilokuð vegna umferðar, sem í mörgum tilfellum, á ekkert erindi til Hafnarfjarðar. Sem dæmi má nefna umferð í gegnum hringtorgið við N1 við Setbergshverfið, en þar fara um 60 þúsund bílar á dag og talið er að einungis um 20 prósent þeirra eigi erindi inn í Hafnarfjörð. Sú umferð á að liggja á stofnvegum utan við eða í jaðri byggðar segir Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í grein á Vísi. Kristín fór nánar yfir málið með okkur.
Nokkrir byggingaverktakar bjóðast nú til þess að kaupa allt að fjórðungshlut í íbúðum nýbygginga sem þeir eru að byggja og verða þannig meðeigendur íbúðakaupenda. Þetta er nýjung á markaði eftir að lánaskilmálar hafa þrengst verulega undanfarið. Við fengum til okkar fasteignasalann Jason Guðmundsson hjá Mikluborg sem hefur reynslu af slíkum viðskiptum og veltum fyrir okkur hvort þetta sé lausnin sem koma muni hreyfingu á fasteignamarkaðinn, hvort þetta form henti öllum og hvort eitthvað beri að varast?
Elsku Monroe og Bogart er titill nýrrar skáldsögu eftir Þröst Jóhannesson, en bókin er hans þriðja. Við hringdum vestur á Ísafjörð og heyrðum í Þresti.
Undir lok þáttar heyrðum við svo af nýrri heimildamynd Heiðars Aðalbjörnssonar sem ber heitið Til Dyflinnar. Þar segir af 83 ferðafélögum sem leggja upp í óvenjulega reisu til írsku höfuðborgarinnar til að syngja íslenska messu tileinkaða hljómsveitinni U2. Heiðar kom til okkar.
Tónlist:
Wet Wet Wet - Love is all around.
Macey Gray - I Try.
Kacey Musgraves - Cardinal.
Jordana og Almost Monday - Jupiter.
U2 - Sweetest Thing.
Valdimar - Karlsvagninn.
Electric light orchestra - Shine a little love.