Mikil hitabylgja hefur gengið yfir á Spáni og víðar í sunnanverðri Evrópu. Gróðureldar geysa og þúsundir manns hafa þurft að flýja heimili sín. Við heyrum í Má Elísyni, öryggis og þjónustufulltrúa og formanni félags húseigenda á Spáni.
Við höldum áfram á þeim nótum. Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, ræðir við okkur um áhrif mikils hita á líkamann og gefur ráð.
Við tökum stöðuna á íslenskri grænmetis uppskeru eftir sumarið hjá Axel Sæland formanni garðyrkjudeildar Bændasamtakanna.
Pétur Maack, formaður Sálfræðingafélags Íslands, verður gestur okkar eftir átta fréttir þegar við ræðum niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu sem fjármálaráðherra segir að verði tryggð á kjörtímabilinu.
Við höldum síðan áfram umræðu um stórleik Víkings og Bröndby sem fram fer í Danmörku í kvöld. Upp úr sauð eftir fyrri leik liðanna í Reykjavík, sérsveit var kölluð út og skemmdarverk framin. Við ræðum við Stefán Pálsson, sagnfræðing og knattspyrnuspekúlant, um bullumenningu og söguleg átök stuðningsmanna.
Í útvarpsfréttum í gær sagði Hugleikur Dagsson frá því að hann eigi í hættu á að Facebook-aðgangi hans verði lokað vegna mynda hans. Facebook notar nú gervigreind til að greina myndir sem þar eru birtar sem hefur leitt til þess að skopmyndir Hugleiks, sem flestar eru af spýtukörlum, eru metnar óviðeigandi. Við ræðum við Tryggva Frey Elínarson, samfélagsmiðlasérfræðing, um þessi mál í lok þáttar, hvort gervigreindin gangi lengra í ritskoðun en manneskjan.