Þorvaldur Guðjónsson, skólastjóri Vinnuskólans, verður hjá okkur í upphafi þáttar þegar við ræðum sumarið framundan, umsóknir og breytingar.
Vorin eru tími uppskeru og uppskeran er oft lífleg og áberandi hjá Listaháskólanum. Nemendur í fatahönnun sína afrakstur síns erfiðis á morgun á tískusýningu í Hafnarhúsi. Anna Clausen sýningarstjóri lítur við hjá okkur og segir okkur frá stefnu og straumum.
Við tökum stöðuna í Úkraínu með Erlingi Erlingssyni hernaðarsagnfræðingi og fyrrverandi starfsmanni íslensku utanríkisþjónustunnar.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur sem þekkir vel til í Þýskalandi, verður gestur okkar eftir átta fréttir. Þýska öryggis- og leyniþjónustan hefur sett stjórnmálaflokkinn Alternative für Deutschland, AfD, á lista yfir öfgasamtök sem ógna lýðræðinu.
Við förum yfir íþróttir helgarinnar, venju samkvæmt.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, og Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna og formaður borgarráðs, verða gestir okkar í lok þáttar þegar við ræðum áhrif viðsnúnings í rekstri borgarinnar á íbúa og gjaldtöku.