Sagt var frá því í hádegisfréttum í gær að Hvalaskoðunarsamtök Íslands, Icewhale, ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar hafi sent matvælaráðherra tillögu þess efnis að allt Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir ræðir þeirra sýn á málið.
Allir og amma þeirra eru í prófatörn eða föst yfir ritgerðarskrifum þessa dagana. Dr. Ólafía Sigurjónsdóttir, klínískur sálfræðingur á Kvíðaklíníkinni deilir með okkur sínum bestu ráðum þegar að kemur að kvíðanum sem fylgir.
Við ræðum við Sólveigu Jónsdóttur stjórnmálafræðing sem þekkir vel til á Írlandi um tónleika írsku sveitarinnar Kneecap á Coachella-hátíðinni sem hefur vakið hörð viðbrögð stjórnmálamanna í Bandaríkjunum.
Alþingi kemur aftur saman eftir páskafrí í dag og fjölmörg stór mál bíða afgreiðslu á lokaspretti þingsins. Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, ræða það sem er framundan.
Við förum yfir íþróttir helgarinnar, venju samkvæmt á mánudegi.
Leikin auglýsing á vegum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem sýnir norska athafnamenn furða sig á fyrirætlunum íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegi, hefur vakið mikil viðbrögð. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, er einn þeirra sem gagnrýnt hefur auglýsinguna og hann verður gestur okkar í lok þáttar ásamt Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.