Bandaríkjastjórn hefur stöðvað alla samnýtingu hernaðarupplýsinga með stjórnvöldum í Úkraínu. Þetta var tilkynnt í gær í kjölfar fregna af ákvörðun stjórnvalda vestanhafs um að frysta alla hernaðaraðstoð við Úkraínu. Hvaða áhrif hefur það á varnir Úkraínu? Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur ræðir málið við okkur.
Vísindamenn reyna sumir hverjir að "afútrýma" dýrum með erfðatækni. Mikill metnaður er nú settur í að reyna að endurvekja loðfílinn til lífsins. Skref var stigið í þá átt nýlega þegar vísindamenn sköpuðu loðmýs með erfðatækni. Er loðfíllinn næsta skrefið? Arnar Pálsson prófessor í lífupplýsingafræði segir málið ekki svo einfalt. Hann kíkir til okkar.
Í tillögum sem starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri tók saman og birti í fyrradag var það lagt til að hefja innleiðingu á rafrænum kosningum, og var sérstaklega bent á að kosningar utan kjörfundar væru dýrar. Við ætlum að ræða kosti og galla þess að fara slíka leið við Viktor Orra Valgarðsson, nýdoktor við Háskólann í Southampton.
Vísir fjallaði í gær um frétt á vef bandaríska fjölmiðilsins Fast Company þar sem rýnt var í tegundir yfirmanna, sem eru fjórar samkvæmt úttektinni, og hvernig sé best að nálgast þá. Við ræðum þau mál við Adríönu Karólínu Pétursdóttur, formann Mannauðs, félag mannauðsfólks á Íslandi.
Jóhann Már Helgason, sérfræðingur í fjármálum knattspyrnufélaga og fótboltaspekúlant, verður gestur okkar eftir fréttayfirlitið hálf níu þegar við ræðum þá umdeildu ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins að fara að fordæmi Super Bowl og skipuleggja skemmtiatriði í hálfleik í úrslitaleik HM á næsta ári.
Opnað hefur verið fyrir skattframtalsskil almennings. Þetta verkefni getur heldur betur vakið kvíðahnút hjá rólyndasta fólki. Hvaða spurningar brenna helst á fólki varðandi skattframtalsskilin og hvað vex þeim helst í augum? Eva Michelsen bókari veit allt um það og segir okkur betur frá.