Við höldum áfram að ræða jarðhræringar og hugsanlegt gos á Reykjanesskaga. Við ræðum við Jón Malmquist Guðmundsson, byggingaverkfræðing og fyrrum fagstjóra bygginga hjá Mannvirkjastofnun, um áhrif jarðskjálfta og eldgosa á íslenskar byggingar, byggingaregluverkið og fleira.
Það vakti mikla athygli í gær þegar David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var skipaður í embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Rishi Sunak, sem hafði fyrr um daginn rekið Suellu Braverman úr embætti innanríkisráðherra. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands kemur til okkar.
Fluglitakóði Veðurstofunnar, fyrir eldstöðvakerfið yst á Reykjanesskaga, var færður upp á appelsínugult á föstudag. Flugfélög sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli fylgjast grannt með stöðu mála þó hún hafi engin bein áhrif á flug þeirra eins og er. Við heyrum í Hauki Reynissyni flugrekstrarstjóra Icelandair um stöðuna og hvernig þær sviðsmyndir sem vísindamenn hafa teiknað upp á Reykjanesskaga gætu haft áhrif á flug.
Starfsemi á annað hundrað fyrirtækja er í uppnámi eftir jarðhræringar í Grindavík, en framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum í gær mikilvægt að bjarga verðmætum eins og hægt er og talaði um mikla óvissu um þessi mál. Við ætlum að ræða við Gísla Davíð Karlsson, sérfræðing hjá Vinnumálastofnun, um réttindi þeirra sem fá mögulega ekki laun í þessu ástandi og mögulega langtímaáhrif á störf á svæðinu.
Sævar Helgi Bragason kíkir til okkar með sitt alkunna vísindahorn.
Námsgrein í Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands efnir til opins fundar um ástandið í Gaza. Markmið fundarins er að fjalla um viðhorf og viðbrögð við krísunni, hugtakanotkun, stöðu stofnana og samtaka, bæði á Íslandi og erlendis, og tilgang mótmæla. Þórir Jónsson Hraundal, lektor í Mið-Austurlandafræði við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands ræðir málin við okkur.
Lagalisti:
ELÍN HALL & GDRN - Júpíter.
Helgi Björnsson - Besta útgáfan af mér.
PETER GABRIEL OG KATE BUSH - Don't Give Up.
Tayo Sound, Pixey - Daisy Chain.
FLEETWOOD MAC - Dreams.
Una Torfadóttir, Baggalútur - Casanova.
PAUL SIMON - Graceland.
Sycamore tree - Heart Burns Down.
Snorri Helgason - Ingileif.
LAUFEY - Street by street.