Nú er vetrarfrí að baki hjá flestum og eflaust mörg sem hafa skellt sér á skíði -önnur sem eru að plana páskana með það í huga. Við heyrum í Herði Finnbogasyni framkvæmdastjóra skíðafélags Dalvíkur og formanni samtaka skíðasvæða á Íslandi.
Einkasala ríkisins á áfengi er mikilvægur og árangursríkur hluti af áfengisstefnu Norðurlandaþjóðanna samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Norðurlöndin, að Danmörku frátalinni, eru öll með ríkiseinkasölu áfengis. Samkvæmt skýrslunni er heildarneysla áfengis mun minni hjá þessum þjóðum en í öðrum Evrópulöndum þar sem verslunin er frjáls. Alma Möller heilbrigðisráðherra ræðir verslun með áfengi við okkur.
Það vakti nokkra athygli í gær þegar greint var frá því að kjarnorkukafbátur bandaríska sjóhersins væri staddur í Eyjafirði, en heimsóknin er sú sjötta síðan utanríkisráðherra heimilaði slíkar heimsóknir fyrir tveimur árum. Við ætlum að ræða þessa kjarnorkukafbáta og hvort hættulegt sé að slíkir kafbátar sigli við Íslandsstrendur við Gísla Jónsson, sérfræðing hjá Geislavörnum ríkisins.
Í gær var sömuleiðis sagt frá því að samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup lítist 86 prósent landsmanna illa á hugmyndir Bandaríkjaforseta um að Bandaríkin eignist Grænland, og að flestir telji aukinn norðurslóðaáhuga Trumps geta falið í sér ógn fyrir Ísland. Við ræðum þessi mál og þessi viðhorf við sagnfræðingana Erling Erlingsson og Val Gunnarsson.
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað móður af ákæru um stórfellda líkamsárás, brot í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum fyrir að láta umskera 17 mánaða gamalt barn sitt í heimahúsi. Við ræðum niðurstöðu þessa máls við Sigurð Örn Hilmarsson, lögmann.
Ísraelskur lagahöfundur hefur kvartað yfir meintum lagaþjófnaði sigurvegara Söngvakeppni sjónvarpsins og krafist þess að lagið verði dæmt úr Eurovision-keppninni eða að hann verði titlaður lagahöfundur. Við ræðum þessa deilu sem á sér fjölmargar hliðstæður við Jóhannes Þór Skúlason, sem er vel að sér í Eurovision-fræðum.