Talsverð togstreita fylgir komandi misserum fyrir fjölda fólks. Ómissandi tilboð virðast á hverju strái, löngun til að halda falleg og íburðarmikil jól rík en samtímis viljum við flest hugsa vel um umhverfið og jörðina okkar. Vinkonurnar Margrét Stefánsdóttir og Lena Magnúsdóttir eru með hlaðvarpið EKKERT RUSL - þar sem þær kynna sér ótal hliðar umhverfisverndar og hringrásarhagkerfisins. Þær kíktu til okkar með nokkur góð ráð fyrir jólin og tilboðsbrjálæðið framundan.
Við fórum yfir fréttir vikunnar eftir átta fréttir eins og alltaf á föstudögum. Í þetta skiptið ræddum við auðvitað fyrst og fremst stöðuna í Grindavík, og viðmælendur voru tveir þingmenn úr Suðurkjördæmi, Vilhjálmur Árnason og Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Á Íslandi hefur löngum þótt sjálfsagt að gera lykkju á lagningu vega til að taka tillit til álfasteina því ekki má raska ró vættanna sem í þeim búa. Ótal sögur eru til um það hvernig huldufólk og náttúruvættir hafi látið til sín taka og gert fólki grikk hafi það gengið illa um bústaði álfanna. Er sú tillitssemi að líða undir lok? Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli á Ströndum segir að forðast ætti að raska byggðum huldra vætta í landslaginu, rétt eins og öðrum sögustöðum, kennileitum og náttúru sem hafa tilfinningalegt gildi. Við ræddum við Jón í lok þáttar.
Bretar spyrja sig nú enn og aftur hvar og hvort skil séu á milli stjórnmála og raunveruleikasjónvarps, en á dögunum var greint frá því að Nigel Farage, fyrrum leiðtogi UKIP og einn helsti valdur þess að Bretar yfirgáfu Evrópusambandið, taki þátt í raunveruleikaþáttunum I'm a Celebrity Get Me Out of Here og fái fyrir það rúmlega 260 milljónir íslenskra króna samkvæmt breskum fjölmiðlum. Ár er síðan Matt Hancock var rekinn úr þingflokki Íhaldsmanna fyrr að taka þátt í sama þætti, en sú umdeilda ákvörðun hans skilaði honum þó einhverjum vinsældum meðal yngri aldurshópa. Við ræddum við Kolbein Marteinsson, almannatengil, um mörk stjórnmála og raunveruleikasjónvarps, og hvort það sé æskilegt vinsældanna vegna að fara í slíka þætti.
KRUMMI - Bona fide (ft. Soffía Björg).
KHRUANGBIN - Texas Sun (ft. Leon Bridges).
MADNESS - Our House.
Kiriyama Family - Weekends.
Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ásgeir Trausti Einarsson - Heimförin.
GRÝLURNAR - Sísí.
M83 - Midnight City.
ELTON JOHN - Crocodile Rock.