Við ætlum að ræða við Öldu Maríu Ingadóttur, einka- og hóptímaþjálfara hjá Hreyfingu, um stöðuna í ræktinni og hvernig best sé að hreyfa sig á nýju ári.
Tveir dagar eru síðan að veðurstofan sagði ný gögn sýna að dregið hefði úr landrisi við Svartsengi og það að dragi úr hraða landriss væri vísbending um að kvikuþrýstingur væri að byggjast upp. Sem sagt, líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi væru að aukast. Sambærileg breyting á landrisi sást í lok dags 15. desember, þremur dögum fyrir gos. Gikkskjálfti sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu í gær minnti okkur svo á að vera á tánum. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur ræðir málin við okkur á eftir.
Veganúar er nokkuð sem landsmenn ættu að vera farin að kannast við. Tækifæri fyrir þau sem hafa borðað yfir sig af kjöti og dýraafurðum til að láta reyna á vegan lífstílinn í einn mánuð. Þetta byrjaði allt saman fyrir tíu árum síðan í Bretlandi en hefur vaxið hratt og þar á meðal hér á landi. Aldís Amah Hamilton leikkona og grænkeri ætlar að segja okkur betur frá því.
Við ætlum síðan að halda áfram að ræða stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs þegar við ræðum við Magneu Marinósdóttur, alþjóðastjórnmálafræðing, eftir átta fréttir. Ísraelsher felldi Saleh al-Aruri, næstráðanda Hamas-samtakanna, í líbönsku höfuðborginni Beirút í fyrradag og Sameinuðu þjóðirnar, sem hafa öryggissveitir í Líbanon, óttast stigmögnun átakanna.
Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur hækkað nokkuð verulega síðustu mánuði - og kom það einhverjum á óvart sem höfðu spáð því að rafmyntir myndu jafnvel þurrkast út eftir nokkrar neikvæðar fréttir af þeim markaði. Við ætlum að ræða við Kjartan Ragnars, lögmann og stjórnarmann í Myntkaupum, um gengið núna og hvort Íslendingar séu jafn spenntir fyrir rafmynntum og áður.
Áramótaskaupið vakti upp umræður ólíkar öllum öðrum eftir-skaups-umræðum síðustu ára. Ekki að ástæðulausu. Heilt atriði sem haldið var uppi af (augljóslega) djúpfölsuðum karakterum vakti heit viðbrögð margra. Ekki síst ættingja Hemma Gunns heitins sem birtist óvænt í lifanda lífi -tíu árum eftir andlát hans. Hvar liggja siðferðisleg og lagaleg mörk þegar að kemur að tækni sem okkur óraði ekki fyrir að yrði svo aðgengileg fyrir örskömmu síðan? Sigríður Hagalín fréttamaður RÚV og rithöfundur kíkir til okkar en hún hefur skoðað þessi mál í kjölinn.
Lagalisti:
Una Torfadóttir, Baggalútur - Casanova.
LEONARD COHEN - Suzanne.
PAUL SIMON - 50 Ways To Leave Your Lover.
BECK - Up All Night.
KÁRI - Sleepwalking.
Ásgeir Trausti Einarsson - Part of me.
ELÍN HALL - Er nauðsynlegt að skjóta þá?.