Eiríkur Ásþór Ragnarsson, hagfræðingur, verður á línunni frá Þýskalandi í upphafi þáttar þar sem mikið gengur á í stjórnmálum og efnahagslífi. Þúsundir starfsmanna Volkswagen hófu verkfallsaðgerðir í vikunni en fyrirtækið hefur boðað lokanir verksmiðja í landinu vegna framleiðslukostnaðar.
„Heimurinn logar,“ sagði nýr mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna, Tom Fletcher, við blaðamenn í Genf í gær og kvaðst kvíðinn fyrir næsta ári. Lítið fór þó fyrir umhverfismálum í umræðunni fram að kosningum síðustu helgar, fólk hefur misst áhugann. Snorri Hallgrímsson forseti Ungra umhverfissinna og Laura Sólveig Lefort Scheefer hringrásarfulltrúi þeirra koma til okkar.
Efling varar við einhverju sem þau kalla gervistéttarfélag. Er ekki öllum frjálst að stofna og velja það stéttarfélag sem þeim hentar? Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar kemur til okkar.
Sólveig Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur sem þekkir vel til á Norður-Írlandi, verður gestur okkar eftir átta fréttir þegar við ræðum stjórnmálin þar og hljómsveitina Kneecap, sem talar fyrir sameinuðu Írlandi og vann á dögunum mál gegn Kemi Badenoch, fyrrverandi ráðherra og leiðtoga breska Íhaldsflokksins, sem hafði ætlað að stöðva styrkveitingu til þeirra.
Bókin Næturgesturinn eftir Hildi Knútsdóttir vermir sæti á lista New York Times yfir bestu hrollvekjur ársins. Hún kemur til okkar.
Möguleg ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur af sumum verið nefnd Valkyrjustjórnin eftir að Inga Sæland sagði að valkyrjurnar væru komnar til að sjá og sigra. Við ætlum að ræða þessa orðanotkun, hvað valkyrjur eru og hvort heppilegt sé að kenna sig við þær við Ingunni Ásdísardóttur, þjóðfræðing.