Við ætlum að halda áfram að ræða þingið í upphafi þáttar, en í dag á óhefðbundnum nótum. Dóra Júlía Agnarsdóttir, fjölmiðlakona og plötusnúður, kemur til okkar en hún hefur lagst yfir tískuna á Alþingi.
Pólska ríkisstjórnin er ósátt við ákvörðun Þýskalands um að taka upp vegabréfaeftirlit við landamæri ríkisins. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, segir Þjóðverja í raun vera að rjúfa Schengen-sáttmálann með þessu, þar sem fólk getur ferðast á milli ríkja innan Schengen-svæðisins án vegabréfa. Við ræðum pólska pólitík við Margréti Adamsdóttur fréttamann.
Alvarleg vanskil einstaklinga og fyrirtækja hafa aukist verulega það sem af er ári á kröfum öðrum en fasteignalánum, miðað við sömu mánuði í fyrra. Samkvæmt gögnum kröfuþjónustunnar Motus jukust alvarleg vanskil um 20,1% hjá einstaklingum og 6,5% hjá fyrirtækjum. Sara Jasonardóttir, verkefnisstjóri fræðslu- og kynningarmála hjá Umboðsmanni skuldara lítur við hjá okkur.
Viðskiptaráð birti í morgun úttekt á umgjörð veðmálastarfsemi hér á landi, en þar kemur meðal annars fram að Íslendingar hafi veðjað næst mest allra Evrópuríkja í fyrra, en aðeins Írar vörðu meiri fjármunum í veðmál. Umfang íslenska veðmálamarkaðarins nam 20 milljörðum króna. Við ræðum við Gunnar Úlfarsson, hagfræðing hjá Viðskiptaráð.
Karlmaður í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir stórfelld fjársvik sem fólust í því að framleiða fjölda laga með hjálp gervigreindar og nýta hana einnig í að falsa spilanir á streymisveitum. Við ræðum þetta mál og áskoranir og tækifæri þegar kemur að gervigreind í tónlist við Braga Valdimar Skúlason, formann Félags tónskálda og textahöfunda.
Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands vilja ræða jafnrétti í heilbrigðisþjónustu og læra af reynslu Svía. Hvernig hafa Svíar hagað þessum málum og hver er þeirra reynsla sem við gætum lært af? Steinunn Bragadóttir hagfræðingur hjá ASÍ lítur við hjá okkur í lok þáttar.