Gró Einarsdóttir, doktor í félagssálfræði og sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, verður á línunni hjá okkur í upphafi þáttar þegar við ætlum að ræða það sem veitir okkur ánægju.
Elon Musk, stofnandi geimferðafyrirtækisins SpaceX, segir fyrirtækið hafa áform um að senda fimm ómönnuð för til reikistjörnunnar Mars innan tveggja ára, og ef vel gangi er ekki útilokað að senda menn til Mars innan fjögurra ára. Við ætlum að ræða þennan möguleika við Sævar Helga Bragason.
Á morgun hefst samnorrænt ungmennaþing í Reykjavík. Þar fá ungmenni tækifæri til að ræða málin sín á milli og eiga orðið þegar að kemur að því sem skiptir þau mestu máli. Þröstur Flóki Klemensson og Snæ Humadóttir eru í ungmennaráði Reykjavíkur -þau kíkja til okkar ásamt Gísla Ólafssyni, einum af skipuleggjendum U-lync ungmennaráðstefnunnar.
Við fylgdumst með Bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa um helgina þar sem Marlena Radziszewska bar sigur úr býtum og lagði 254,6 kílómetra að baki. Við ætlum að ræða þessi lengstu hlaup, hvort heilbrigt sé að taka þátt í þeim og áhrif á líkama og sál við Elísabetu Margeirsdóttur, ofurhlaupara og næringafræðing.
Til hvaða ráðherra ber þjóðin mest traust? Hefur það breyst mikið á síðustu misserum? Við förum yfir nýjustu könnun Maskínu með Andrési Jónssyni almannatengli.
Guðmundur Jóhannsson, tæknispekúlant Morgunútvarpsins, verður gestur okkar í lok þáttar.