Á hverju sumri heldur fjöldi sjálfboðaliða frá Landsbjörg upp á hálendið og er þar til staðar ef óhöpp eða slys verða hjá þeim fjölmörgu sem þar eiga leið um. Frá miðjum júní fram til lok ágúst má finna hópa björgunarfólks að Fjallabaki og eitthvað skemur á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Við hringdum og tókum stöðuna hjá Alexander Pálma Oddssyni, úr björgunarsveitinni Ársæli, sem er á Hálendisvaktinni.
Við fengum til okkar Þorgerði Guðmundsdóttur formann Sniglanna en bifhjólafólk sótti í síðustu viku kynningarfund hjá Vegagerðinni í framhaldi af lagningu tilraunamalbiks á Reykjanesbraut. Talsverðar umræður höfðu skapast um þessa tilraun sem og tíðar blæðingar í klæðningu undanfarin ár. Eins og gefur að skilja hefur bifhjólafólk miklar áhyggur af þessum málum. Þorgerður sagði okkur aðeins af málinu eins og það lítur út fyrir þeim.
Breytingar á þjónustu heilsugæslunnar hafa verið í fréttum og sitt sýnist hverjum. Fólk hefur lýst því að þurfa að bíða lengi eftir tíma hjá heimilislækni. Aðgangur á síðdegisvakt heilsugæslunnar verður ekki eins og áður en aukin áhersla lögð á símaráðgjöf. Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir kom til okkar og ræddi fyrirkomulagið og það hvernig bráðaþjónustu er háttað á Íslandi, verkefni sem miðar að því að gera þjónustuna skilvirkari og svo hugmyndir um það hvernig megi bæta bráðaþjónustuna frekar.
Við höfum fjallað töluvert undanfarið um Coda Terminal verkefni Carbfix í Straumsvík og mótmæli íbúa í nágrenninu. En hvernig lítur formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands á málið? Árni Finnson var hjá okkur.
Og Guðmundur Jóhannsson kom til okkar í lok þáttar í tæknihornið og sagði okkur frá þeirri staðreynd að japanska stjórnsýslan hefði nýverið hætt að nota diskettuna.
Lagalisti:
GDRN - Hvað er ástin.
Billie Eilish - Birds of a Feather.
David Bowie - Sound and Vision.
The Black Keys - Dead And Gone.
Salka Sól Eyfeld - Sólin og ég.
Blur - Girls And Boys.
Jóhanna Guðrún - Töfrar (Þjóðhátíðarlagið 2024).
U2 - I Still Haven't Found What I'm Looking For.
Coldplay - Feelslikeimfallinginlove.