Heimskviður

176 - Fólksfækkun í Japan og sprengjuleit í Úkraínu

Fólksfækkun í Japan er mun hraðari en gert var ráð fyrir og hefur mikil áhrif á samfélagið. Tölur um fjölda barna sem fæddust í Japan í fyrra voru gefnar út á dögunum og urðu víða fréttaefni. Mörgum var brugðið því fólksfækkunin þar í landi hefur orðið hraðari en spár gerðu ráð fyrir. Árið 1983 fæddist ein og hálf milljón barna í Japan. Í fyrra voru þau helmingi færri. Afleiðingar fólksfækkunarinnar eru margar. Til dæmis hefur fjölda grunnskóla verið lokað því nemendum fækkar hratt. Dagný Hulda Erlendsdóttir kynnti sér þetta og ræddi við sendiherra Japans á Íslandi og við ritstjóra The Japan Times.

Þegar byssurnar þagna í Úkraínu, hvenær sem af því verður, bíður risavaxið og áralangt verkefni Úkraínumanna; leita og eyða sprengikúlum, jarðsprengjum, sprengigildrum og leyfum af þessum hergögnum sem fallið hafa á landið, eða verið komið þar fyrir, síðan allsherjarinnrás Rússa hófst fyrir rúmum tveimur árum. 150.000 ferkílómetrar lands eru talin vera mögulega "menguð" í þessum skilningi - fjórðungur af öllu landi innan landamæra Úkraínu. En á sama tíma og barist er í austur- og suðurhluta landsins, er vinna við sprengjuleit og sprengjueyðingu þegar hafin - alþjóðasamfélagið hefur lagt til fjármagn, tækjabúnað og þjálfun. Íslenskir sprengjusérfræðingar hafa einmitt verið kenna úkraínskum hermönnum þessa hættulegu starfsgrein á námskeiðum í Litáen. Við fjölluðum um undirbúninginn í Heimskviðum fyrir hálfu öðru ári en núna er komin tólf mánaða reynsla á þetta verkefni. Björn Malmquist fer yfir þann árangur sem hefur náðst og hvernig þetta flókna verkefni gengur.

Frumflutt

16. mars 2024

Aðgengilegt til

17. mars 2025
Heimskviður

Heimskviður

Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi.

Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.

Þættir

,