Nú fer fram Landsmót skáta við Úlfljótsvatn og eru þar saman komin ungmenni víðs vegar að úr heiminum. Skátarnir eru alþjóðleg æskulýðshreyfing sem vinnur að valdeflingu ungmenna í þeim tilgangi að virkja þau til jákvæðra áhrifa í sínu samfélagi og til þátttöku í að bæta þann heim sem við búum í. Við heyrðum í mótstýrunni, Kolbrúnu Ósk Pétursdóttur, sem sagði okkur hvernig hafi gengið en Landsmótinu lýkur á föstudaginn.
Íslandsmótið í golfi 2024 fer fram á Hólmsvelli í Leiru en herlegheitin byrja á morgun, fimmtudag. Íslandsmótið á sér langa sögu á Hólmsvelli í Leiru og er þetta í 21. sinn sem keppt er um Íslandsmeistaratitla hjá Golfklúbbi Suðurnesja, en klúbburinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Til okkar komu þau Hulda Bjarnadóttir forseti Golfsambandsins og Sveinn Björnsson formaður Golfklúbbs Suðurnesja. Þau sögðu okkur betur frá þessum hápunkti golfara á hverju sumri, Íslandsmótinu.
Ríkissaksóknari hefur gert lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að hefja aftur rannsókn á meintum mútugreiðslum þeirra Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju Ingveldar Þrastardóttur Kemp. Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður kærði konurnar fyrir fjársöfnun Solaris, sem stofnað var til í þeim tilgangi að koma flóttafólki frá Palestínu, sem þegar hafði fengið dvalarleyfi á Íslandi, hingað til lands. Lögreglustjóri taldi ekki grundvöll fyrir því að halda rannsókn málsins áfram og felldi hana niður, en nú hefur ríkissaksóknari sem sagt gert lögreglustjóra að taka rannrókn upp að nýju. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Semu Erlu, var á línunni hjá okkur til að ræða þetta.
Vantrú og mikil reiði braust út hjá bifhjólafólki þegar tilkynnt var að héraðssaksóknari hafi fellt niður mál í tengslum við banaslys á Kjalarnesi sumarið 2020. Hjón á bifhjóli fórust í slysinu sem átti sér stað á nýlögðu og hálu malbiki sem stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar. Enginn mun því bera ábyrgð endi málið svona. Þau Atli Már Jóhannsson og Sólveig Stefánsdóttir bifhjólafólk komu til okkar ásamt Ólafi Guðmundssyni umferðasérfræðingi og fóru yfir málið með okkur.
Lagalisti:
Hafdís Huld - Tomoko
Sálin hans Jóns míns - Englar
Myles Smith - Stargazing [Moonlight Version]
Sabrina Carpenter - Espresso
Coldplay - Feelslikeimfallinginlove
Emmsjé Gauti, Björn Jörundur Friðbjörnsson og Fjallabræður - Fullkominn dagur til að kveikja í sér
Moby - Porcelain
Beach Weather - Sex, Drugs, Etc.
Bob Marley & The Wailers - Could You Be Loved
Justin Timberlake - Selfish
WHAM! - The edge of heaven