Borgartúnið í Reykjavík er ein undarlegasta gatan í Reykjavík að mati umsjónarmanns. Það er eins og hún viti ekki hvert hún er að fara og þannig virðist það hafa verið frá upphafi, þvílíkt er sundurleitið ef maður getur sagt sem svo. Margar nýjar hábyggingar hafa risið undanfarin ár, en einnig stakstæðar stórbyggingar, svo sem Höfðaborg, Arion banki, og svo austar Nýherji, Hús Samtaka Atvinnulífsins o.fl. Einnig hafa risið háar íbúðablokkir í Túnunum og nú er ein slík að fara að rísa við horn Nóatúns og Borgartúns. Margar þessara bygginga eru fínustu hús, en tala ekki endilega alltaf saman. Stundum er Reykjavík kölluð borg "sundurleitninnar" og þarna stendur sú lýsing fullkomlega undir nafni. Rætt við Frey Frostason arkitekt hjá THG, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúa og Magnús Magnússon framkvæmdastjóra E3, sem er framkvæmdaaðili lóðarinnar.