Unga fólkið sem er að koma undir sig fótunum í dag, finna starfsferilinn, eignast heimili og eiga börn muna ekki eftir Ráðhúslausri Reykjavík, að ekki var hægt að ganga í kringum Tjörnina, muna ekki Hallærisplanið, Fjalarköttinn og Grjótaþorp í niðurníðslu. Þau muna ekki bílastæði og akstur í kring um Austurvöll. Með deiliskipulaginu árið 1986, breyttist margt í Kvosinni í Reykjavík og í dag finnst fólki þetta alltaf hafa verið svona. Guðni Pálsson og Dagný Helgadóttir arkitektar unnu þetta skipulag á sínum tíma. Í ljósi breytinga í borginni í dag ætlum við að rýna aðeins í þetta skipulag og skoða hverju var breytt í gamla bænum og hverju var hent úr þessu skipulagi, því eins og alltaf gengur ekki allt upp. Hér í stúdíó sitja Hilmar Þór Björnsson og Páll Hjaltason arkitektar en við skulum byrja með Pétri Ármannssyni arkitekt í Krikjuhvoli í Reykjavík.
Gengið með Pétri Ármannssyni frá Dómkirkjunni inní Skólabrú, yfir Austurvöll að Ingólfstorgi og Austurstræti og rætt um hvað breyttist í Kvosinni við þetta nýja skipulag. Rætt áfram við þá Hilmar Þór Björnsson og Pál Hjaltson arkiteka um Kvosarskipulagið og framtíð Kvosarinnar.