Vínill vikunnar

Söngvar frá Íslandi - seinni hluti (1960)

Vínilplata vikunnar þessu sinni er safnplatan Söngvar frá Íslandi sem gefinn var út af Íslenskum tónum árið 1960 og inniheldur samtals 26 lög á tveimur vínilplötum. Plöturnar innihalda einsöngs- og kórlög af ýmsum toga, sem áður höfðu komið út á 78 og 45 snúninga plötum hjá útgáfunni auk laga sem ekki höfðu áður verið gefin út.

Í þessum þætti verður seinni plötunni af tveimur gerð skil.

Fyrsta lag á A-hlið plötunnar er lagið Ég lít í anda liðna tíð, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Höllu Eyjólfsdóttur frá Laugabóli (ranglega sagt eftir Huldu í þættinum) og það er Magnús Jónsson sem syngur við undirleik Fritz Weisshappel. Hann leikur raunar undir í næstu fjórum lögum sömuleiðis. Næsta lag er sungið af Guðrúnu Á. Símonar en það er lagið Nafnið eftir Árna Thorsteinsson við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Í dag skein sól eftir Pál Ísólfsson og aftur ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson er þriðja lag plötunnar og þar syngur Kristinn Hallsson með sinni fallegu bassaröddu. Fjórða lagið er Sólskríkjan í flutningi Þuríðar Pálsdóttur, lagið eftir Jón Laxdal og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Þá er komið Þorsteini Hannessyni sem syngur um Fegurstu rósina í dalnum, lag Árna Thorsteinssonar. Þjóðlagið Vor í dal hljómar þessu næst í flutningi Daníels Þórhallssonar með Karlakórnum Vísi frá Siglufirði. Stjórnandi er Þormóður Eyjólfsson og undirleikari Emil Thoroddsen. Sjöunda og síðasta lag fyrri hliðar plötunnar er lagið Það er svo margt eftir Inga T. Lárusson við ljóð Einars E. Sæmundssonar. Það er Sigurður Ólafsson sem syngir við undirleik Carls Billich.

B-hlið plötunnar byrjar á því við heyrum Tígulkvartettinn flytja lagið Sveinki káti eftir Sigvalda Kaldalóns, stjórnandi og undirleikari er Jan Morávek. Þar á eftir heyrum við Sigfús Halldórsson leika og syngja eigið lag við ljóð Tómasar Guðmundssonar, við Vatnsmýrina. Þriðja lagið er úr óperettunni Í álögum eftir Sigurður Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson, en þar syngur Guðmundur Jónsson lagið Kom ég upp í Kvíslarskarð ásamt hljómsveit undir stjórn Victors Urbancic. Fjórða lagið er síðan flutt af Blönduðum kór Hábæjarkirkju. Stjórnandi kórsins er Sigurbjartur Guðjónsson organisti. Það er þjóðlagið Vorið er komið sem kórinn flytur á plötunni. Fimmta lagið á þessari hlið er síðan Söngur bláu nunnanna eftir Pál Ísólfsson við ljóð Davíðs Stefánssonar, flutt af Maríu Markan við undirleik Fritz Weisshappel. Kristinn Hallsson syngur því næst lagið Nótt eftir Árna Thorsteinssonar við ljóð Magnúsar Gíslasonar, og enn og aftur er það Fritz Weisshappel sem leikur undir. Lokalag plötunnar er síðan hið einstaka lag og ljóð Ég bið heilsa eftir Inga T. Lárusson við ljóð þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Það er Tígulkvartettinn sem flytur en um stjórn og undirleik sér Jan Morávek.

Umsjón: Stefán Eiríksson.

Frumflutt

14. feb. 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Vínill vikunnar

Vínill vikunnar

Vínil plata úr safninu dregin fram og spiluð í heild.

Þættir

,