Jazzvakning var stofnuð í Skiphóli í Hafnarfirði laugardaginn 27. september 1975 að undirlagi Jónatans Garðarssonar og félaga hans
Í stofnskránni stóð að klúbburinn væri stofnaður: [T]il að vinna að útbreiðslu jasstónlistar, m.a. með jasskynningu og tilfallandi kennslu og leiðsögn og tónleika og annarri menningarstarfsemi sem að tónlist lýtur.
Til að byrja með töluðu menn um Jazzklúbb Hafnarfjarðar en kjósið var endanlegt nafn úr nokkrum tillögum á fyrsta jazzkvöldinu sem haldið var 14. nóvember það ár. Tvö nöfn fengu flest atkvæði, Jazzáhugamannafélagið eða J.A.M. og Jazzvakning, en síðara nafnið fékk einu atkvæði meira og varð því ofaná.
Fljótlega fóru menn að velta því fyrir sér að gefa út íslenskan jazz á plötu, en lítið hafði verið um slíka útgáfu og reyndar engin jazzbreiðskífa komið út fram til þessa. Á endanum var ákveðið að gefa út verk eftir Gunnar Reynir Sveinsson sem hann nefndi Samstæður og tekið var upp átta árum áður.
Gunnar Reynir Sveinsson fæddist í Reykjavík 1933 og byrjaði snemma að læra á píanó og tónfræði en hafði í sig og á með því að spila á trommur með ýmsum jazzleikurum. Hann sneri sér svo að víbrafóninum og varð fremsti víbrafónleikari okkar og þótt víðar væri leitað. Hann fór svo í frekara nám og í tónsmíðum hér á landi og erlendis og starfaði síðan sem tónlistarkennari, en samdi einnig nokkuð af hljómsveitarverkum og sönglögum og einnig verk fyrir einleikara. Hann lést árið 2008.
Samstæður Gunnars Reynis voru frumfluttar í Norræna húsinu, 28. júní 1970 á fyrstu Listahátíð í Reykjavík, en verkið var samið fyrir hátíðina. Hann tileinkaði Jóni Múla Árnasyni verkið.
Verk Gunnars semur sig í ætt við það sem kallað var „Third Stream“-tónlist í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en hugmyndin kom fyrst fram í fyrirlestri hjá píanóleikaranum og tónskáldinu Gunther Schuller. Schuller lýsti tónlistinni sem svo að hún sameinaði ólíka strauma klassískrar tónlistar og jazz, sem rynnu saman sem fyrsti og annar straumur og úr yrði sá þriðji, sem væri hvorki jazz né klassík heldur eitthvað nýtt, þriðji straumurinn sem byggði á hljómfræði og formgerð úr klassískri tónlist, en spuna úr jazzi.
Gunther Schuller var leiðandi í þriðjastraums tónlist, en einnig jazzpíanóleikarinn og tónskáldið John Lewis sem fór fyrir Modern Jazz Quartet með Milt Jackson, Percy Heath og ýmsum trommurum, þeirra helstum Kenny Clarke og Connie Kay.
Þriðjastraums tónlist náði aldrei þeim sessi sem Schuller og Lewis og fleiri tónsmiðir og tónlistarmenn vonuðust eftir, sumpart vegna þess að jazzáhugamenn höfðu lítinn áhuga á formfestu klassískrar tónlistar og unnendur klassískrar tónlistar kunnu illa við spunann og það sem þeim fannst agaleysi í jazzinum. Segja má að frjálsi jazzinn og framúrstefnan og síðar bræðingsjazz hafi endanlega gert útaf við hugmyndina.
Þess má geta að Schuller kom hingað til lands 1964 og stýrði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum og flutti fyrirlestur um hugmyndir sínar sem fóru mjög misjafnlega í áheyrendur. Hann kom svo aftur 1990 og stýrði Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikum á Listahátið og enn til að stýra Sinfóníunni á Myrkum músíkdögum 1993.
Samstæður voru fluttar víða erlendis á næstu árum eftir frumflutninginn, til að mynda í finnska sjónvarpinu í nóvember 1971 og á jazzhátíð í Júgóslavíu og hljóðritun af verkinu var flutt í útvarpi í Belgíu, Bretlandi, Ítalíu, Noregi, Portúgal, Sviss og Tyrkland. Verkið var þó ekki flutt aftur hér á landi fyrr en á kammerdjasstónleikum Íslensku hljómsveitarinnar í Norræna húsinu í mars 1993. Í viðtali við DV af því tilefni sagði Gunnar að þegar hann samdi verkið hafi jazzinn var í mikilli lægð í heiminum og frægustu jassleikarar hafi afgreitt á bensínstöðvum.
„Mér rann blóðið til skyldunnar að semja þetta verk sem ég kalla kammerjass og nafnið Samstæður þýðir að klassísk tónlist og jass séu ekki andstæður heldur samstæður," sagði hann við það tækifæri, en hann tekur eins til orða á umslagi plötunnar.
Í viðtali í Morgunblaðinu skömmu fyrir frumflutninginn sagði Gunnar Reynir að sig hefði langað til að gleðja sálina og semja eitthvað fyrir eftirlætis djassleikarana sína, sem hann lék raunar lengi með sjálfur, þá Jón „Bassa" Sigurðsson, trommuleikarann Guðmund „Papa Jazz“ Steingrímsson, saxófónleikarann Gunnar Ormslev og Reynir Sigurðsson víbrafónleikara. Yngri eru þeir Örn Ármannsson sem leikur á gítar og Jósef Magnússon á flautu, en Jósef var ekki jazzleikari, heldur starfaði hann með Sinfóníuhljómsveitinni. Gunnar Reynir stjórnaði sveitinni við flutninginn.
Gagnrýnendur sem skrifuðu um tónleikana tóku verkinu vel, til að mynda JMÁ, Jón Múli Árnason, sem skrifaði fyrir Þjóðviljann: „Hafi Gunnar Reynir Sveinsson ætlað sér að sanna að jazzinn og aðrar tegundir tónlistar séu ekki andstæður, heldur samstæður þá tókst honum það fullkomlega. En eins og margan hafði grunað fyrirfram, hlaut jazzsveiflan að bera af öðrum þáttum þessa frumlega, margslungna, fagra og glaða verks.“
Upptakan frá 1970 er notuð við útgáfuna 1978 og á umslagi plötunnar er þeirri spurningu velt upp af hverju verkið var ekki tekið upp að nýju fyrir útgáfuna. Því er svarað svo:
„Svarið er einfalt. Það er ekki hægt að endurtaka það sem áður var gert. Upptakan hefði orðið betri en þótt verkið sé meira skrifað en algengast er í djassinum hefðu þær Samstæður, hljóðritaðar 1978, orðið allt aðrar Samstæður en þær sem þessi breiðskífa geymir.“
Samstæður eru í sex hlutum og sækja heiti í ljóð Aðalsteins Kristmundssonar, Steins Steinarr.
A-hliðin hefst á Frumvarpi til laga um almennan söng á þjóðvegum. Þar næst kemur Samræmt göngulag fornt og svo loks Hámarksverð á nótum.
B-hliðin hefst með Lagi án ljóðs, þá er það Nýtt bráðabirgðalag og svo kemur sjötti og síðasta þáttur verksins, Að ófengnum skáldalaunum.