Vínill vikunnar

Söngvar frá Íslandi - fyrri hluti (1960)

Vínilplata vikunnar þessu sinni er safnplatan Söngvar frá Íslandi sem gefinn var út af Íslenskum tónum árið 1960 og inniheldur samtals 26 lög á tveimur vínilplötum. Plöturnar innihalda einsöngs- og kórlög af ýmsum toga, sem áður höfðu komið út á 78 og 45 snúninga plötum hjá útgáfunni auk laga sem ekki höfðu áður verið gefin út.

Í þessum þætti verður fyrri plötunni af tveimur gerð skil.

Á A-hlið plötunnar eru sex lög og það fyrsta er flutningur Ketils Jenssonar og Þjóðleikhússkórsins á broti úr óperunni Cavaleria Rusticana, Fagurt skín í skærum skálum. Næsta lag syngur Kristinn Hallsson, lag eftir Skúla Halldórsson sem heitir Hinn suðræni blær, en Skúli leikur einnig undir á píanó. Þá er komið á Guðrúnu Á. Símonar með annað lag úr Óperunni Cavaleria Rusticana, Lofið Drottinn, sem hún flytur ásamt Þjóðleikhúskórnum og líkt og fyrra lagið er flutningurinn undir stjórn Viktors Urbancic. Fjórða lagið flytur höfundurinn sjálfur, Sigfús Halldórsson, en það er lagið Í dag, við ljóð Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti. Enn ertu fögur sem forðum í flutningi Þorsteins Hannessonar er fimmta lagið, og þar leikur undir Fritz Weisshappel. Lagið er eftir Árna Thorsteinsson og ljóðið er eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld. Lokalagið á fyrri hlið plötunnar er lagið Þú situr sem glóeyg í garði, lag úr óperettunni Í álögum eftir Sigurð Þórarinsson og Dagfinn Sveinbjörnsson, sungið af Magnúsi Jónssyni og Guðrúnu Á. Símonar og undir stjórn Victors Urbancic.

Á B-hlið plötunnar er fyrsta lagið Þú eina hjartans yndið mitt, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Guðmundar Geirdal, sungið af Þuríði Pálsdóttur við undirleik Fritz Weisshappel. Þá er komið laginu Kveðja eftir Þórarinn Guðmundsson, sem María Markan flytur við undirleik Fritz Weisshappel á ný. Þriðja lagið er lag Sigurðar Birkis við ljóð Einars Jónssonar frá Húsavík, Til söngsins, flutt af Guðmundi Jónssyni og Karlakór Reykjavíkur, stjórnandi er Sigurður Þórðarson. Fjórða lagið er Ave María Sigvalda Kaldalóns við texta Indriða Einarssonar, en það flytur Sigurður Björnsson með kvennakór undir stjórn Ragnars Björnssonar, en undirleikari er Magnús Blöndal Jóhannsson. Fimmta lagið er Rósin eftir Árna Thorsteinsson við ljóð Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds. Flutt af armenska baritón söngvaranum Pavel Lisitsian við undirleik Tatjönu Kravtchenko. Síðasta lag plötunnar er svo lagið Mamma mín eftir Skúla Halldórsson í flutningi Sigurðar Ólafssonar, en höfundurinn leikur sjálfur undir.

Umsjón: Stefán Eiríksson.

Frumflutt

7. feb. 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Vínill vikunnar

Vínill vikunnar

Vínil plata úr safninu dregin fram og spiluð í heild.

Þættir

,