Viðburður verður haldinn í Rokksafninu í Hljómahöll í Reykjanesbæ þann 18. apríl næstkomandi þar sem lokun Rokksafnsins verður mótmælt. Í þættinum í gær fór Baldur Guðmundsson, einn vina Hljómahallarinnar, yfir það sem veldur þeirri óánægju sem blossað hefur upp eftir að áform bæjarins urðu ljós. Sverrir Bergmann Magnússon, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Reykjanesbæ og einn úr vinnuhóp bæjarins um flutning bókasafnsins, kom til okkar til að fara yfir það sem er í gangi.
Mbl.is hefur eftir heimildum sínum að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kunni að verða tilkynnt í dag og ætti að geta tekið við völdum ekki síðar en á morgun. Í Silfrinu í gær sagði Vilhjálmur Árnason sjálfstæðismenn ekki muni styðja vantraust á Svandísi ef af áframhaldandi samstarfi verður. Inga Sæland, Flokki fólksins og Björn Leví Gunnarsson Pírati litu við hjá okkur.
Við köfuðum síðan ofan í þarmaflóru, gerjaðan mat og drykk. En vísindamenn við HÍ hafa unnið að þverfaglegri rannsókn á samlífi manna og örvera í daglegu lífi. Málið hefur ótal hliðar og til að ræða einhverjar þeirra við okkur komu Birna Guðrún Ásbjörnsdóttir doktor í heilbrigðisvísindum og Jón Þór Pétursson doktor í þjóðfræði.
Hefur þig dreymt um að verða töframaður? Þeir Gunnar Kr. Sigurjónsson, forseti Hins íslenska töframannagildis, og Einar Aron Fjalarsson, töframaður, komu til að segja okkur frá félagsskapnum. Félagið stendur um þessar mundir fyrir sérstöku kynningarátaki í því skyni að fjölga töframönnum hér á landi.
Og í lokin kom Guðmundur Jóhannsson tæknigúru Morgunútvarpsins til okkar í lok þáttar með eitthvað forvitnilegt úr tækniheimum.
Lagalisti:
Helgi Björnsson - Himnasmiðurinn.
Kaleo - Lonely Cowboy.
Blondie - Atomic.
Mannakokrn - Aldrei of seint.
Á móti sól - Okkur líður samt vel.
Pilot - Magic.