Öll höfum við fæðst, eða er það annars ekki? Mögulega eru til einhver tilfelli eins og klónun eða annað sem ég get ekki ímyndað mér en ég held að þessi staðhæfing haldi vatni. Hvort að við höfum gengið í gegnum það að fæða sjálf eða vera viðstödd fæðingu er hinsvegar annað mál. Ég viðurkenni að sjálfur er ég að fara að ganga í gegnum það ferli ef allt gengur upp bráðlega, svo efni þáttarins er hugsanlega valið út frá persónulegri sjónarmiði en oft áður. En hinsvegar held ég að við höfum öll gott af því að vita meira um fæðingar, um hvað þær snúast og við hverju má búast. Til okkar er komin Birna Gerður Jónsdóttir og saman ætlum við að fara yfir málin, ég má spyrja eins og sá sem ekkert veit og vonandi lærum við eitthvað saman. Við ætlum að byrja á því að horfa aðeins aftur í tímann.
Ég minni á póstinn minn atlimar@ruv.is ef það eru einhverjar spurningar eða ábendingar um efni sem þið viljið koma að. Einnig á hlaðvarpið Legvarpið ef fólk vill heyra fleira og meira um allt sem tengist fæðingu, en svo ég vitni í texta hlaðvarpsins: "Ljósmæðurnar Stefanía Ósk og Sunna María ræða um ljósmæðratengd málefni líðandi stundar í Legvarpinu", endilega leggið við hlustið ef þið hafið áhuga!