Í dag stendur til að flytja 31 fyrirbura frá Gaza til Egyptalands. Börnin voru flutt í gær frá Al-Shifa sjúkrahúsinu, sem Ísraelsher fyrirskipaði rýmingu á í fyrradag, yfir á annað sjúkrahús á Gaza. Læknar segja börnin hafa margvíslega kvilla vegna slæmrar aðstöðu á sjúkrahúsinu og nú þegar hafa sex fyrirburar sem dvöldu þar látist vegna skorts á hreinu vatni. Við ræðum við Hrólf Brynjarsson nýburalækni á vökudeild um umönnun og flutning á fyrirburum og veikum nýburum.
Forsetar Bandaríkjanna og Kína funduðu í síðustu viku og hétu því þar að bæta samskipti ríkjanna. Við ætlum að fara yfir niðurstöður fundarins með Geir Sigurðssyni, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðing í málefnum Kína, en við ræðum einnig mögulegar breytingar á samskiptum Kína og Bretlands eftir að David Cameron tók við embætti utanríkisráðherra, en hann hefur verið gagnrýndur þar í landi fyrir náin tengsl við kínversk stjórnvöld.
Við höfum áður fjallað um Vinnum gullið -nýja afreksstefnu í íþróttum sem verður formlega sett síðar í dag á ráðstefnu þar sem kafað verður ofan í málið. Þar taka ólympíufararnir Hrafnhildur Lúthersdóttir og Björgvin Páll Gústavsson til máls. Fyrst ætla þau samt að kíkja til okkar og deila aðeins með okkur sínum hugleiðingum um þetta risaferðalag.
Við höldum síðan áfram að ræða jarðhræringar á Reykjanesskaga þegar við ræðum við Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðing og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands, eftir átta fréttir.
Nú er ljóst að eldhræringarnar við Grindavík hægja hugsanlega á hagvexti og stórauka eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, sem var of mikil fyrir. Á sama tíma eru óvenju háir stýrivextir Seðlabankans að hægja stórlega á framleiðslu nýrra íbúða -Þetta segir Stefán Ólafsson prófessor emerítus við Háskóla Íslands sem vill að forsvarsmenn Seðlabankans lækki stýrivexti til að bregðast við stöðunni. Við heyrum í Stefáni.
Nokkuð hefur borið á því undanfarna mánuði að vinsælasta efnið á streymisveitum séu heimildaþættir um frægt fólk sem tekur sjálft virkan þátt í gerð þeirra og framleiðslu. Þættirnir um David Beckham vöktu talsverða athygli, Pamelu Anderson, Arnold schwarzenegger, og nú Robbie Williams, svo fáein nöfn séu nefnd. Við ætlum að rýna í þessa þróun, að fólk segi eigin sögu í heimildaþáttum, og áhrif þess að koma að framleiðslunni sjálf, við Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt við Háskóla Íslands og umsjónarmann fjölmiðlafræði við Háskólann.
Lagalisti:
Julian Civilian - Fyrirmyndarborgari.
Womack, Bobby - Across 110th street.
Una Torfadóttir, Baggalútur - Casanova.
PETER GABRIEL - Sledgehammer.