Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, var á línunni í upphafi þáttar en hann hefur unnið að því sérstaklega að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál. Hann hefur einnig rannsakað þriðju vaktina og töku fæðingarorlofs hér á landi í samanburði við stöðuna annars staðar á Norðurlöndum. Við ræddum þessi mál og fleiri.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, var gestur minn eftir fréttayfirlitið hálf átta en verkfallið hefur náttúrulega víðtæk áhrif í samfélaginu. Ýmis starfsemi er í lágmarki, sérstaklega í heilbrigðisþjónustu og skólastarfi þar sem konur og kvár eru í afgerandi meirihluta. Um áttatíu prósent starfsfólks Landspítalans eru konur og kvár og þar verður því dregið úr starfsemi sem hægt er að draga úr en starfsemin er þó þess eðlis að ekki komast öll frá störfum þennan dag. Ég ræddi við Runólf um skipulagið á spítalanum í dag, ómissandi starfsfólk og augljóst vanmat á ýmsum störfum.
Ég ræddi síðan við Þórð Kristinsson, kynjafræðikennara við Kvennaskólann í Reykjavík og doktorsnema en hann er að rannsaka ólíka samfélagsmiðlanotkun unglinga. Hann kom einnig að því að setja saman námsefni í kynjafræði fyrir framhaldsskólanema með Björk Þorgeirsdóttur.
Síðan eru það fastir liðir eins og alltaf á þriðjudögum þegar Guðmundur Jóhannsson, tæknispekúlant Morgunútvarpsins, kom til okkar, og umfjöllunarefnin taka mið af deginum í dag þegar við ræðum sögu forritunar og jafnrétti hjá tæknirisunum.
Og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur hjá UN Women, sem báðar sitja í framkvæmdastjórn Kvennaverkfallsins komu í lok þáttar og ræddu daginn framundan og mikilvægi hans.