Við kynntum okkur sveppi í þættinum í dag, en Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, doktor í sveppafræðum, sem hefur verið í Svepparíkinu, áhugaverðum sjónvarpsþáttum sem sýndir eru á RÚV á sunnudagskvöldum, var með okkur í dag. Hún er óþreytandi að fræða fólk um sveppi, fjölbreytileika þeirra, hverjir þeirra eru hættulegir, hverjir eru góðir í matargerð, hverjir hafa jafnvel lækningarmátt, hverjir innihalda hugbreytandi efni og svo er það blessaður myglusveppurinn, sem hefur auðvitað verið mikið í fréttum undanfarin ár, þegar hann finnst í byggingum með tilheyrandi raski og tilkostnaði. Guðríður Gyða fræddi okkur um svepparíkið í þættinum.
Um helgina sáum við í fréttum RUV þegar veitt var úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda á Kirkjubóli og Ingibjargar Sigurðardóttur konu hans. Tilgangur sjóðsins er í raun tvíþættur, annars vegar að vekja athygli á og styðja við það sem vel er gert hvað varðar borgfirska menningu. Hins vegar er tilgangurinn að efla ljóðagerð ásamt því að vekja athygli á ljóðum Guðmundar Böðvarssonar, sem enn eiga fullt erindi til okkar, því hann fjallar oft um grundvallaratriði sem varða líf okkar hér á jörðinni. Við töluðum við Ingibjörgu Daníelsdóttur formann minningarsjóðsins í dag.
Svo var fugl dagsins auðvitað á sínum stað.
Lög í þættinum
Capriljóð / Álftagerðisbræður(erlent lag, texti Friðjón Þórðarson)
Í grænum mó / Elly Vilhjálms (Sigfús Halldórsson, texti Gestur Guðfinnsson)
Veðurglöggur / Spilverk þjóðanna (Spilverk þjóðanna)
Fylgd / Pálmi Gunnarsson og hljómsveitin Kjarabót (Sigurður Rúnar Jónsson, texti Guðmundur Böðvarsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR+