Margir þekkja íþróttina krikket en það sem færri vita er að Ísland á landslið í krikket. Euro Cup 2025 verður haldið í Varsjá, Póllandi og fer fyrsti leikurinn fram á fimmtudaginn. Á mótinu mun Ísland keppa gegn Póllandi, Úkraínu, Lettlandi og Litháen. Jakob Wayne fæddist í Ástralíu, faðir hans er ástralskur og móðir hans er íslensk. Eftir að hann fluttir aftur til Íslands 12 ára saknaði hann krikkets og hann og félagar hans fóru að stunda íþróttina og nú er komið íslenskt landslið. Allir leikmenn íslenska krikketlandsliðsins eru innflytjendur og koma frá löndum eins og Pakistan, Indlandi, Sri Lanka, Bretlandi, Ástralíu og Suður-Afríku. Jón Gunnar Þórðarson kom með Jakobi í þáttinn í dag en hann er framkvæmdastjóri Bara Tala, sem er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig meðal annars í að kenna fólki af erlendum uppruna íslensku. Jón segir að því hafi legið beint við að styrkja landsliðið, þar sem meirihluti leikmanna voru þegar að nýta sér þjónustu Bara Tala. Jakob sagði okkur frá uppgangi krikkets, útskýrði reglurnar og sagði líka frá áströlskum bökum sem stendur til að bjóða Íslendingum upp á að gæða sér á á næstunni, undir merkjunum Arctic Pies.
Páll Ásgeir Ásgeirsson útivistafrömuður kom til okkar í dag með það sem við köllum Veganestið. Á þriðjudögum í sumar kemur hann í þáttinn og gefur góð ráð í sambandi við útivist, gönguferðir og gönguleiðir. Í dag tókum við upp þráðinn frá því í síðustu viku og Páll hélt áfram að tala um fyrstu skrefin, hvernig er best að bera sig að í því að koma sér af stað til að njóta útivistar og náttúrunnar.
Svo var fugl dagsins auðvitað á sínum stað.
Tónlist í þættinum í dag:
Lukkustjarna / Halli Reynis (Halli Reynis)
Michelle / Beatles (Lennon & McCartney)
The Last Farewell / Roger Whittaker (Roger Whittaker & R.A. Webster)
Ítalskur Calypsó / Erla Þorsteinsdóttir (erlent lag, texti Loftur Guðmundsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON