Tómið eftir sjálfsvíg, bjargráð til að lifa með sorginni, er heiti á nýrri bók eftir Önnu Margréti Bjarnadóttir en hún missti föður sinn úr sjálfsvígi árið 1999, þegar hún var 22ja ára gömul. Eftir að móðir hennar lést úr krabbameini árið 2014, fannst henni sláandi munur á því að missa foreldri úr sjálfsvígi eða krabbameini. Markmiðið með bókinni er að veita styrk þeim lesendum sem hafa nýlega misst ástvin úr sjálfsvígi eða eru enn að takast á við sorg í kjölfar slíks andláts og að varpa ljósi á hversu mismunandi einstaklingarnir eru sem falla frá á þennan hátt og ólíkar aðastæður þeirra hafa verið. Við töluðum við Önnu Margréti í þættinum í dag.
Svo var það Reykjavíkurmaraþonið, sem fer fram um helgina, þar eru hleypur mikill fjöldi til styrktar hinum og þessum málefnum. Arnór Ásgeirsson, sem hleypur í ár fyrir Píeta samtökin, kom í þáttinn í dag og með honum kom séra Bjarni Karlsson, en hann leiðir stuðningshóp fyrir karlmenn, feður, bræður, syni, vini og maka, sem sagt aðstandendur sem misst hafa í sjálfsvígi.
Fugl dagsins var svo auðvitað á sínum stað.
Vegna umfjöllunarefna þáttarins í dag bendum við hlustendum á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, netspjallið á síðunni 1717.is og auðvitað á Píeta samtökin í síma 552-2218. Svo veitir Sorgarmiðstöð þeim sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi stuðning til dæmis í síma 551-4141.
Tónlist í þættinum í dag:
Sól bros þín / Bubbi (Bubbi Morthens)
Minningar / Elly Vilhjálms (John Hartman, texti Jón Örn Marinósson)
Sól mín sól / Anna Pálína Árnadóttir (Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
Northern Sky / Nick Drake (Nick Drake)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR