Ásta Þórisdóttir ólst upp á Ströndum og fór ung að prófa sig áfram með að nýta plöntur í nærumhverfinu í ýmis smyrsl. Seinna fór hún í hönnunarnám við Listaháskóla Íslands þar sem hún beindi sjónum sínum að óvinsælum plöntum og rannsakaði hötuðustu plöntu landsins, skógarkerfilinn, í þaula. Ásta er skólastjóri grunnskólans á Drangsnesi en á sér hliðarsjálf sem hún kallar Arfistann. Við ræddum í dag við hana um nýsköpun, skógarkerfilinn sem hún fékk á heilann og fleiri jurtir sem sumir kalla illgresi en eru til margs nýtilegar.
Páll Ásgeir Ásgeirsson, sérfræðingur Sumarmála í útivist og ferðum um landið, var hjá okkur í dag í síðasta sinn þetta sumarið með það sem við köllum Veganestið. Hann hefur verið að vinna sig sólarhringinn í kringum landið undanfarnar vikur og í dag var komið að Suðurlandinu. Við fengum sem sagt að heyra hvaða stöðum hann mælir með að staldra við á og skoða á ferðum okkar um Suðurlandið.
Fugl dagsins var svo auðvitað á sínum stað.
Tónlist í þættinum í dag:
Stebbi og Lína / Ríó Tríó (Evert Taube, texti Jónas Friðrik Guðnason)
Grasið grænkar / Milljónamæringarnir (Karl Olgeirsson, texti Karl Olgeirsson og Sigtryggur Baldursson)
Léttur í lundu / Bítlavinafélagið (Karl Hermannsson)
Here Comes the Sun / The Beatles (George Harrison)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG ARNHILDUR HÁLFDÁNARDÓTTIR