Við fjöllum um hugtakið óviljandi endurreisn, accidental renaissance, sem varð til í upphafi samfélagsmiðlaaldarinnar. Það eru ljósmyndir sem fanga augnablik, oft í hversdagslegum aðstæðum, þar sem ljós og skuggar, hreyfing, tjáning og sjónarhorn raðast upp þannig að það minnir á málverk frá endurreisnartímanum. Við ætlum að ræða þetta fyrirbæri við Hallgerði Hallgrímsdóttur myndlistarmann og ljósmyndara í samhengi við ljósmyndina sem tekin var af Donald Trump stuttu eftir skotárásina í Pensilvaníu um helgina.
Og heimildamyndahátíðin IceDocs verður haldin í sjötta sinn á Akranesi um helgina. Þar er boðið upp á fjölbreytta flóru íslenskra jafnt sem erlendra heimildamynda auk veglegrar barna- og ungmennadagskrár. Ingibjörg Halldórsdóttir einn af stofnendum hátíðarinnar segir okkur frá því sem framundan er.
Rakel McMahon myndlistarkona kemur til okkar í síðari hluta þáttarins. Hún opnaði sýninguna Trú Blue í gallerý Þulu í Marshallhúsinu úti á Granda. Hún kemur til okkar og svarar spurningum í anda samkvæmsileiks sem kenndur er við Marcel Proust. Þar sem við spyrjum opinna og jafnvel persónulegra spurninga. Við ræðum við hana um Grikkland, Jesú, hælaskó, trú og margt fleira.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson og Bjarni Daníel Þorvaldsson.
Frumflutt
17. júlí 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Tengivagninn
Í Tengivagninum er fjallað um það helsta sem er að gerast í menningu í sumar.