12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 3. nóvember 2025
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Tugmilljónagreiðslur fyrir ráðgjafastörf hjá ríkislögreglustjóra er ekki eðlileg stjórnsýsla, segir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin fylgist grannt með vinnu dómsmálaráðuneytisins í málinu.

Lögmaður Vélfags segir að ákvörðun stjórnvalda um viðskiptaþvinganir vegna meintra tengsla fyrirtækisins við rússneska auðmenn byggist ekki á fullnægjandi rannsókn. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna óttast mikið manntjón af völdum jarðskjálfta sem varð í Afganistan í nótt. Staðfest er að 20 fórust.

Sérfræðingar eru sammála um að skattar og gjöld sem lögð verða á leigusala eigi eftir að rata beint út í leiguverð.

Hlutafjárverð í Alvotech lækkaði um rúmlega fimmtung í morgun. Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna veitir fyrirtækinu ekki markaðsleyfi þar í landi fyrir líftæknilyfið AVT05.

Forseti Bandaríkjanna segir Kínverja og Rússa stunda tilraunir með kjarnorkuvopn án þess að ræða það. Hann hefur sjálfur boðað að Bandaríkin hefji slíkar tilraunir.

Ójöfnuður gerir heiminn viðkvæmari fyrir heimsfaraldri. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu stofnunar hjá Sameinuðu þjóðunum. Ójöfnuður grafi undan viðbrögðum við faröldrum, hvort sem er hjá einstökum þjóðum eða á alþjóðavísu og veldur því að faraldrar verða meira truflandi, banvænni og vara lengur.

Of algengt er að foreldrar langveikra barna örmagnist og endi jafnvel sem öryrkjar þegar börnin eru orðin fullorðin. Þetta segir framkvæmdastjóri Umhyggju, félags langveikra barna.

Eftir tíu umferðir gæti það farið svo að nýliðar Sunderland sitji í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Til þess þarf liðið að vinna Everton í kvöld.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,