16:05
Síðdegisútvarpið
Leiðtogafundur, minna merkilegar minningar, Njáluvaka og bílastæðabras
Síðdegisútvarpið

Þær Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu. Þær fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Mál málanna í dag er fundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Volodimirs Selenskís Úkraínuforseta. Oddur Þórðarson fréttamaður fór yfir fundinn og mögulegan árangur af honum.

Í gær 17. ágúst var haldið upp á 1. árs afmæli verslunarinnar Prís en frá opnum hefur Prís verið ódýrust allra matvöruverslana á landinu samkvæmt ítrekuðum mælingum Verðlagseftirlits ASÍ. En hvernig hefur gengið á þessu fyrsta ári? Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Prís kom til okkar

20 jakkafataklæddir hlauparar lögðu í morgun af stað frá Akureyri til Reykjavíkur, en þeir munu hver um sig hlaupa sex maraþon næstu sex dagana til styrktar Krafti. Við heyrðum í tveimur hlauparanna, þeim Pétri Ívarssyni, og Jóhanni Ottó Wathne.

Samkvæmt umfjöllun í Morgunblaðinu síðustu daga eru fjölmargar fyrirhugaðar nýbyggingar ekki hugsaðar með bílakjallara. Ein rökin eru þau að þeir íbúar sem ekki eiga bíl þurfi ekki að greiða niður bílastæði fyrir aðra. Bílastæðismál virðast vera orðin mun flóknari en áður og sótt er mjög að einkabílnum og allt er þetta liður í þéttingu byggðar í Reykjavík. Sigurður Ágúst Sigurðsson formaður félags eldri borgarar í Reykjavík kom til okkar.

Nýstofnað Njálufélag að frumkvæði og undir forystu Guðna Ágústssonar gengst fyrir Njáluvöku sem hefst í Rangárþingi á fimmtudag. Tilgangur félagsins er að hefja Brennu-Njáls sögu til þess vegs og virðingar sem henni ber í íslenskri bókmenntasögu, og verður mikið um dýrðir á hátíðinni, sem nær hápunkti með útihátíð á Rangárbökkum þar sem 99 manna hópreið í slóð Brennu-Flosa lýkur með því að eldur verður borinn að táknrænni endurgerð Bergþórshvols. Guðni kom og sagði okkur betur af þessu.

Didda Flygenring og Sigríður Hafdís Hannesdóttir hafa í sumar safnað sögum og minningum Eskfirðinga sem til þessa hafa ekki þótt nógu merkilegar til að vera ritaðar. Þær halda áfram að safna á bæjarhátíðinni Útsæðinu um helgina og sýna afraksturinn með bæjargöngu í næstu viku. Við slógum á þráðinn til Diddu.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 52 mín.
,