Þær Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu. Þær fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
Á Snæfellsnesi er verið að byggja nýtt aðstöðuhús við skíðasvæðið - já þið heyrðuð rétt Skíðasvæði Snæfellsness staðsett í Grundarfirði. Við heyrðum í formanni félagsins og fáum það allra nýjasta úr þessu leyndasta skíðasvæði landsins.
Færsla Braga Þórs Valssonar á Málspjallinu á Facebook hefur vakið mikil viðbrögð, en þar benti hann á það að nær öll skilti við aðkomuna að Geysi í Haukadal séu á ensku, og enga íslensku þar að sjá. Hvað veldur? Er þetta einhverskonar minnimáttarkennd, eða misskilin þjónusta við ferðamenn? Við ræddum það við Braga.
1640 Svepparíkið, ný íslensk þáttaröð hóf göngu sína á RÚV á sunnudaginn, en hún fjallar eins og nafnið gefur til kynna um sveppi frá hinum ýmsu hliðum. Lífríki sveppa er fjölbreyttara en margan grunar, og við ræddum það við mæðgunar Önnu Þóru Steinþórsdóttur leikstjóra og umsjónamanninn Ernu Kanemu Mashinkila.
Sænski stangarstökkvarinn Armand Duplantis bætti í gærkvöld heimsmetið í stangarstökki enn einu sinni. Duplantis fór þá yfir 6,29 m á frjálsíþróttamóti í Búdapest í Ungverjalandi og bætti fyrra met sitt um einn sentimetra. Yngri systir Duplantis heitir Johanna og er 22 ára. Hún er einnig stangarstökkvari og er einnig að gera það gott í greininni. Sigurbjörn Árni Arngrímsson sagði okkur sitthvað um Duplantis systkynin.
Um helgina verður því fagnað að Heilsustofnunin í Hveragerði verður 70 ára. Við heyrðum í Þóri Haraldssyni forstjóra um þessa merku stofnun aðeins um söguna og hvað verði gert í tilefni tímamótanna.
Það vita það kannski ekki allir en það vex kúmen í Viðey. Upphaf kúmenræktunar má rekja til aftur til Skúla Magnúsar landfógeta sem hóf ýmsar ræktunartilraunir í Viðey upp úr miðri átjándu öld, þó með misjöfnum árangri. Viðeyjarkúmenið vex þar enn og þykir smærra og sætara en annað kúmen. Fræin eru orðin fullþroskuð og Björk Bjarnadóttir, umhverfis- og þjóðfræðingur sem leiðir tínsluferðir í Viðey sagði okkur allt um þetta.