
Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir.
Víðsjá heimsækir Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvara á vinnustofuna í dag.
Sem barn sat Matthías mikið við eldhúsborðið og teiknaði en það var eftir að hann hóf nám í Listaháskólanum sem hann fór að höggva í stein. Þrívíddinn kallaði og sökum peningaleysis ákvað hann að höggva í alveg ókeypis stein. Úr grjótinu sem hann vinnur spretta sögur og líf sem taka á sig alls kyns form en Matthías sækir fyrst og fremst innblástur í íslenskan bókmenntaarf, goðsögur og þjóðsögur, en líka náttúruna sjálfa. Frá útskrift hefur hann sýnt víða og höggmyndir hans má finna í helstu söfnum landsins. Verk hans er reyndar líka að finna inni á þó nokkrum heimilum því Matthías hefur hannað verðlaunagripi, meðal annars fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þessa dagana vinnur hann hörðum höndum að nýju útilistaverki fyrir Listasafn Reykjavíkur, verk sem prýða mun Urðartorg í Úlfarsárdal. Meira um það í Víðsjá dagsins.