Útvarpsfréttir.
Engin lausn er í sjónmáli í kjaradeilu kennara og verkföll í tuttugu og einum leik- og grunnskóla hefjast að óbreyttu á morgun. Foreldrar eru í óða önn að gera ráðstafanir, komi til verkfalla.
Utanríkisráðherra Noregs hefur áhyggjur af áhrifum viðskiptastríðs á efnahag landsins og á EFTA-ríkin. Stjórnvöld í Kanada, Mexíkó og Kína ætla að bregðast við tollahækkunum Bandaríkjanna.
Setja þarf mikinn kraft í að þróa RNA-bóluefni gegn fuglainflúensu að mati sérfræðings í ónæmisfræði. Menn hafi smitast en ekki sín á milli enn sem komið er.
Sprengjum var varpað á heimavistarskóla í Kursk-héraði í Rússlandi í gærkvöld þar sem tugir almennra borgara höfðu leitað skjóls. Ásakanir ganga á víxl milli stjórnvalda í Rússlandi og Úkraínu um það hver hafi gert árásina.
Leit að heitu vatni fyrir Djúpavog er hafin að nýju eftir að borun vinnsluholu skilaði litlu í fyrra. Nú verða boraðar tvær rannsóknarholur til að miða út mögulega heitavatnsæð og stefnt á að hitta á æðina með vinnsluholu í sumar.
Ný arfgerð sem verndar fyrir riðuveiki í sauðfé fæst ekki viðurkennd, eins og bændur höfðu vonast eftir. Ræktun gegn riðu gengur þó vonum framar.
Lambgimbur sem kom í heiminn á Rangárvöllum fyrir helgi er líklega fyrsta lamb ársins. Þessi vorboði er mjög snemma á ferðinni og bóndinn á bænum vonar að það séu ekki fleiri á leiðinni.