
Í boði náttúrunnar
Þátturinn Í boði náttúrunnar hefur nú göngu sína annað sumarið í röð, en í fyrra byrjuðu þau hjónakorn, Guðbjörg Gissurardóttir og Jón Árnason að rækta sitt eigið lífræna grænmeti. Þau höfðu þá enga reynslu, né hugmynd um hvernig þau ættu að koma slíku verki í framkvæmd. En til að afla sér þekkingar fóru þau á stúfana og hittu sérfræðinga og vana leikmenn á því sviði og fengu ráðleggingar og hugmyndir sem skiluðu þeim ágætis uppskeru í lok sumars. Nú þegar þau hafa tekið sín fyrstu skref í matjurtaræktinni halda þau ótrauð áfram, full metnaðar og ætla að afla sér enn frekari reynslu og þekkingar á matjurtaræktinni og frekari sjálfbærni.
Í Boði náttúrunnar fjallar um ferðalag þeirra hjóna og verður hlustendum vonandi hvatning til að rækta sitt eigið grænmeti eða innblástur til enn frekari afreka í garðinum. (Áður á dagskrá 2010)