Í þættinum er slegist í för með Skúla Alexanderssyni, fyrrverandi athafnamanni og alþingismanni á Hellissandi. Skúli segir frá gömlu vörunum yst á Snæfellsnesi, meðal annars Gufuskálavör, þar sem enn má sjá kjalförin í fjörugrjótinu eftir bátana sem dregnir voru á land og ýtt úr vör öldum saman frá þessum stöðum. Skúli ræðir um höfnina í Krossavík sem komið var upp eftir að vélar komu í bátana og gömlu varirnar dugðu ekki lengur. Sú höfn dugði þó ekki stækkandi bátum og lagðist af þegar loks fékkst fé til hafnargerðar í Rifi. Litið er inn með Skúla í sjóminjasafnið í Sjómannagarðinum á Hellissandi þar sem varðveitt eru tvö áraskip, áttæringarnir Bliki, elsta varðveitta fiskiskip Íslendinga og Ólafur Skagfjörð. Á lóð safnsins er líka Þorláksbúð, endurgerð samnefnds kots sem stóð fram yfir miðja síðustu öld á Hellissandi, og hún er líka skoðuð í fygld með Skúla sem hefur verið ötull í starfi sínu að minjamálum á Hellissandi og nágrenni.