Tónlist á munaðarleysingjahæli stúlkna í Feneyjum á 18. öld
Á 18. öld lagði munaðarleysingjahælið Ospedale della Pietà í Feneyjum mikla áherslu á tónlistarkennslu og tónlistarflutning. Stúlkur á munaðarleysingjahælinu lærðu söng og hljóðfæraleik og reglulega voru haldnir tónleikar þar sem kvennahljómsveit hælisins lék og kvennakór söng. Tónlistarkennari við Ospedale della Pietà var tónskáldið Antonio Vivaldi. Einn besti nemandi hans var fiðluleikarinn Anna Maria della Pietà og Vivaldi samdi marga konserta fyrir hana. Í þættinum í dag verður leikinn einn af þessum konsertum, fiðlukonsert í C-dúr RV 179a, og einnig verður flutt kantatan "Ecce nunc" eftir Agötu della Pietà sem einnig ólst upp á munaðarleysingjahælinu. Kantatan fannst árið 2021 í bókasafni í Feneyjum og hafði þá, eftir því sem best er vitað, legið þar óhreyfð í tæp 300 ár. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Jóhannes Ólafsson.