Fyrir skömmu fékk Víkingur Heiðar Ólafsson Grammy-verðlaun fyrir geislaplötu sína með Goldberg-tilbrigðunum eftir Johann Sebastian Bach. Hinn klassíski geiri Grammy-verðlaunanna skiptist í 8 flokka og verðlaun Víkings Heiðars voru í flokknum "Besti einleikarinn". Í þættinum "Á tónsviðinu" verða leikin nokkur af Goldberg-tilbrigðunum af geislaplötu Víkings Heiðars, en einnig verður leikin tónlist af hinum hljómdiskunum sem fengu Grammy-verðlaun á klassíska sviðinu. Meðal þeirra eru óperan "Adriana Mater" eftir finnska tónskáldið Kaiju Saariaho, sönglög eftir bandaríska 20. aldar tónskáldið Florence Price og ballettverkið "Revolucion Diamantina" eða "Glimmer-byltingin" eftir mexíkanska tónskáldið Gabrielu Ortiz. Geislaplatan með síðastnefnda verkinu fékk þrenn Grammy-verðlaun, en verkið vísar til mótmæla mexíkanskra kvenna gegn kynbundnu ofbeldi í landinu árið 2019. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.