
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.
Umsjón: Rúnar Róbertsson og Felix Bergsson
Hátíðin Eldur í Húnaþingi er haldin nú um helgina á Hvammstanga. Felix fór á staðinn í gær í blíðskaparveðri, hitti heimamenn og tók framkvæmdastjóra hátíðarinnar Þórunni Ýr Elíasdóttur tali áður en tónlistarhátíðin Melló Musica hófst í Félagsheimilinu.
Í dag, um korter í fjögur, ætlar Sigurgeir Svanbergsson að synda frá Vestmannaeyjum yfir til Landeyjasanda til styrktar Barnaheillum - Save the Children á Íslandi. Ef afrekið tekst verður hann sjötti einstaklingurinn sem þreytt hefur sundið svo vitað sé til. Sigurgeir safnar áheitum fyrir Barnaheill og mun allt safnað fé renna til stuðnings börnum sem búa á átakasvæðum. Sigurgeir hefur vaktað veðrið og hafstrauma undanfarna daga og er orðið ljóst að hann leggur af stað frá Eiðinu í dag. Sundleiðin er rúmlega 12 km og stefnir hann á að vera kominn í land á Landeyjarsöndum kl. 9/10 í kvöld ef allt gengur upp skv. áætlun. Við hringdum í Sigurgeir.
Hinseginhátíð Vesturlands sem fer fram nú um helgina í Snæfellsbæ. Þetta er önnur hátíð félagsins en fyrsta Hinseginhátíð Vesturlands var haldin í Borgarnesi í fyrra með miklum glæsibrag. Hinseginhátíðin er farandhátíð sem flakkar á milli sveitarfélaganna á Vesturlandi til að auka sýnileika hinsegin fólks um allan landshlutann. Hápunktur helgarinnar er gleðiganga í Ólafsvík sem verður á morgun kl 14:00. Alexander Aron Guðjónsson, stjórnarmeðlimur í Hinsegin Vesturlandi var á línunni.
Framkvæmdir hafa staðið við nýtt hótel við Lækjargötu í Reykjavík í nokkur ár með tilheyrandi raski og óþægindum fyrir gangandi og akandi umferð. En nú sér fyrir endann á. Búið er að rífa niður skjólgirðingar sem girtu af byggingasvæði og hótelið opnar brátt. Gamla hvíta húsið við hliðina, sem byggt er 1877, verður hluti af nýju Hótel Reykjavík Sögu en þar verður meðal annars sýningarrými fyrir þá muni sem fundust við uppgröftinn í grunni hótelsins. En hvenær á að opna, hvernig verður aðstaðan og hvernig lítur hótelbransinn út núna eftir faraldurinn? Við fengum framkvæmdastjóra Íslandshótela, Davíð Torfa Ólafsson, til okkar.
Næstu föstudaga fáum við lífskúnstnerinn, hárgreiðslumeistarann og Eyjamanninn Óla Bogga Heiðarsson til að koma til okkar í lok þáttar og fara aðeins yfir það sem er að gerast hjá landanum í mannlífi, menningu og mat.