Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Við höldum áfram að kafa í jólabókaflóðið í Kilju vikunnar. Ragna Sigurðardóttir ræðir við okkur um skáldsöguna Útreiðartúrinn sem gerist á Álftanesi á ýmsum tímaskeiðum. Arndís Þórarinsdóttir segir frá Sólgosi - það er ungmennabók sem fjallar um miklar náttúruhamfarir og eftirleik þeirra. Við heimsækjum Svein Einarsson sem fæst ótrauður við skriftir - tölum einkum við hann um röð bóka þar sem hann spjallar nokkuð frjálslega við lesendur, blandar saman æviminningum, hugleiðingum og kveðskap. Hin nýjasta nefnist Í belg og biðu. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir skrifar um galdrafár og hörmuleg örlög í bókinni Glæður galdrabáls en þar er sögusviðið frá Skagafirði og vestur í Selárdal. Birgitta Björg Guðmarsdóttir flytur okkur kvæði úr nýrri ljóðabók sem hún kallar Draugamandarínur. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Allar litlu lygarnar eftir Evu Björg Ægisdóttur, Ragnarök undir jökli eftir Skúla Sigurðsson og Franska spítalann eftir Katrínu Jakobsdóttur og Ragnar Jónasson.
