Við heyrum aftur sögurnar sem sagðar voru í þáttaröðinni Sögum af landi, sem var á dagskrá Rásar 1 frá árinu 2015-2023. Þar var flakkað um landið, rætt við fólk sem hafði sögur að segja, kynntir voru áhugaverðir staðir og fréttamál líðandi stundar skoðuð - oft með nýjum augum. Efni í þættina unnu frétta- og dagskrárgerðarfólk RÚV um allt land.
Umsjón: Gígja Hólmgeirsdóttir
Þáttur frá 14. maí 2016: Í þættinum er fjallað um útivist og hreyfingu víða um landið enda sumarið tíminn þar sem möguleikar til slíks eru nær óþrjótandi á Íslandi. Við ræðum við Hjörleif Örn Jónsson, skólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri, en hann tók upp á því að byrja skokka fyrir nokkru og breytti lífi sínu til hins betra, við ræðum við fjallagarpinn Viðar Kristinsson á Ísafirði sem segir okkur frá fjallaskíðum og deilir einnig með okkur magnaðri lífsreynslusögu en hann lenti í snjóflóði þegar hann var að iðka þessa íþrótt í fjöllunum ofan við Ísafjörð í janúar í fyrra. Við kynnum okkur kayakíþróttina á Norðfirði en þar lifir íþróttin góðu lífi og hefur gert í mörg ár og svo heyrum við í formanni Skotfélags Austurlands sem segir vinsældir skotfimi aldrei hafa verið meiri fyrir austan.
Viðmælendur: Bjarni Þór Haraldsson, formaður Skotfélags Austurlands, Ari Benediktsson, formaður Kayakklúbbsins Kaí, Viðar Kristinsson, útivistarmaður á Ísafirði og Hjörleifur Örn Jónsson, tónlistarmaður og skokkari á Akureyri.
Dagskrárgerð: Ágúst Ólafsson, Halla Ólafsdóttir og Jón Knútur Ásmundsson.
Umsjón með endurliti: Gígja Hólmgeirsdóttir
