Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.
Við tókum okkur frí frá heimsmálunum í dag. Ljóðlist var á dagskránni. Tilefnið var öðrum þræði Dagar ljóðsins í Kópavogi en hjá sumu fólki eru allir dagar dagar ljóðsins. Anton Helgi Jónsson ljóðskáld kom í kaffi og rabbaði um ljóð, bæði hans og annarra, ljóðaást, -áhuga og fleira í þeim dúr.
Þorri er blótaður víða um helgina. Á morgun verður Þorrablót Vopnfirðinga í félagsheimilinu Miklagarði - Vopnfirðingar gæða sér á súrmat og sviðum og öllu tilheyrandi, og skemmta sér saman. Sigga Dóra, Sigríður Dóra Sverrisdóttir, lætur sig auðvitað ekki vanta. Við slógum á þráðinn til hennar og spjölluðum um lífið og tilveruna.
Og svo var það sígilda tónlistin. Í dag sagði Magnús Lyngdal okkur frá ítalska hljómsveitarstjóranum Arturo Toscanini sem var í hópi áhrifamestu hljómsveitarstjóra tuttugustu aldar; Toscanini var víst haldinn fullkomnunaráráttu og dundaði við smáatriðin.
Tónlist:
James Taylor - Another day.
Dave Brubeck Quartet - Take five.
Ninna Rún Pálmadóttir, Pálmi Gunnarsson - Vinir vita það.
